Hanna Borg Jónsdóttir
verkefnastjóri svæðisbundins farsældarráðs á höfuðborgarsvæðinu
SSH heldur utan um verkefnastjórn vegna stofnunar svæðisbundins farsældarráðs á höfuðborgarsvæðinu. Stofnun farsældarráða í öllum landshlutum er mikilvægt skref í því að tryggja markvissa innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sbr. 5. gr. laganna.
Verkefnastjóri farsældarráðs á höfuðborgarsvæðinu, Hanna Borg Jónsdóttir, vinnur í nánu samstarfi við forsvarsmenn innleiðingar farsældarþjónustu í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og hefur það verkefni að leiða saman það fagfólk sem vinnur að málefnum barna í því skyni að stofna farsældarráð höfuðborgarsvæðisins.
Verkefnastjóri er ráðinn til tveggja ára og áætlað er að fyrir lok samningstímans hafi farsældarráð höfuðborgarsvæðisins verið stofnað og vinna við fyrstu áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða í þágu farsældar barna hafin.
Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem yfirleitt eru kölluð Farsældarlögin, tóku gildi 1. janúar 2022. Þau snúast um að auðvelda aðgengi barna og fjölskyldna þeirra að stuðningi þegar á þarf að halda, á réttum tíma og frá réttum aðilum.
Börn og foreldrar sem á þurfa að halda eiga að hafa aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Samþætt þjónusta í þágu farsældar barns er skipulögð og samfelld og hefur það markmið að skapa heildarsýn og ramma utan um þau þjónustukerfi sem skipta mestu máli fyrir farsæld barns.
Samþætting þjónustu fjallar um hvernig þeir ólíku þjónustuaðilar sem koma að börnum og fjölskyldum eiga að vinna saman að málum þeirra og leita saman að lausnum til að mæta þörfum hverju sinni.
Markmiðin með samþættingu þjónustu eru að samstarf í kringum börn og fjölskyldur sé í skýrum farvegi og að tryggja að barnið sé hjartað í kerfinu.
verkefnastjóri svæðisbundins farsældarráðs á höfuðborgarsvæðinu