Fara í efni

Skólar og menntun í fremstu röð - Mat á yfirfærslu framhaldsskóla frá ríki til sveitarfélaga

Þessi skýrsla var hluti af verkefninu: Samvinna skólastiga frá leikskóla að háskóla í verkefnaflokknum Skólar og menntun í fremstu röð en verkefnið var hluti af Sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2013. Áætlunin var fjármögnuð m.a. af ríkissjóði, samkvæmt sérstökum samningi þar um.

Í stuttu máli má segja að hlutverk framhaldsskóla landsins sé að undirbúa nemendur annars vegar fyrir frekara nám og hins vegar fyrir lífið og þær áskoranir sem mæta þeim að skólagöngu lokinni.

Markmið stjórnvalda er að færa ábyrgð og ákvörðunartöku nær daglegri starfsemi. Með flutningi framhaldsskólanna til sveitarfélaga myndi fjarlægð milli stjórnenda starfseininga og fjárveitingavalds minnka, sama mætti segja um fjarlægð milli notenda þjónustunnar og ákvarðanatökuaðila. Með meiri nálægð er líklegt að nánd og samfella í þjónustunni aukist.

Mikilvægt er að horfa til reynslu af tilfærslu annarra málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. Þó margt hafi tekist vel er ekki sjálfgefið að það sama eigi við um framhaldsskólana. Leggja þarf mat á stöðu ólíkra sveitarfélaga og meta hvort umfang og tímasetning flutnings sé skynsamleg.

Ekki er hægt að færa afgerandi rök fyrir því að framhaldsskólum væri almennt betur fyrir komið hjá sveitarfélögum en ríki. Þó að slíkur valkostur gæti haft ýmsa kosti í för með sér er hætta á að fjölbreytni og valmöguleikar skerðist. Mikilvægt er að læra af reynslu af tilfærslu annarra þjónustuþátta frá ríki til sveitarfélaga. Huga þarf að því að undirfjármagnað framhaldsskólakerfi er viðkvæmt og að staða sveitarfélaga er ólík.

Höfuðborgarsvæðið hefur nokkra sérstöðu þegar horft er til mögulegrar yfirfærslu framhaldsskóla frá ríki til sveitarfélaga. Nemendur í skólum á höfuðborgarsvæðinu koma víða að og til að viðhalda núverandi þjónustustigi væri virk samvinna milli sveitarfélaganna nauðsynleg, ef til yfirfærslu kæmi.

Verkefnastjóri var Skúli Helgason.