Fara í efni

Á höfuðborgarsvæðinu verði fjölbreyttur húsnæðismarkaður sem uppfylli þarfir íbúa. Hugað verður sérstaklega að framboði á húsnæði á viðráðanlegu verði

Lögð verði áhersla á að fjölga valkostum um íbúðagerðir og eignarform á nýjum uppbyggingarsvæðum. Gera verður ráð fyrir aukinni spurn eftir minni íbúðum vegna fjölgunar eldri
borgara og minnkandi fjölskyldustærðar (Fylgirit 7).

Sveitarfélög útfæra húsnæðisstefnur sínar þannig að framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði verði tryggt svo að allir íbúar hafi tök á að útvega sér húsnæði á almennum markaði. Með aukinni samþættingu byggðaþróunar við almenningssamgöngur með hátt þjónustustig má lækka rekstrarkostnað heimila (Fylgirit 7).

Við útfærslur húsnæðisstefnu í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

Þemakort

Kort 11 -Landnotkun megindrættir

Meginþættir landnotkunarstefnu svæðisskipulagsins og stefnu um grunngerð eru hér dregnir saman á eitt þemakort til að sýna samspil þeirra og gefa heildarmynd. Um þessa meginþætti gildir eftirfarandi en málsmeðferð vegna þessara þátta er nánar lýst í töflu 3 í 4. kafla.

  • Afmörkun vatnsverndar er bindandi, sbr. samþykkt um vatnsvernd nr. 555/2015. Nákvæm mörk eru í kortagrunni svæðisskipulagsins. Sjá markmið 4.4, tilheyrandi texta og töflu 3 í 4. kafla.
  • Vaxtarmörk eru 50 m belti sem er bindandi og skal lega markanna skilgreind nánar í aðalskipulagi. Nákvæm mörk beltisins eru í kortagrunni svæðisskipulagsins. Sjá markmið 1.1, tilheyrandi texta og töflu 3 í 4. kafla.
  • Þar sem vaxtarmörk mæta takmörkunum á landnotkun, t.d. vatnsvernd eða friðlýstum svæðm, skal taka mið af þeim takmarkandi mörkum við skilgreiningu á legu markanna í aðalskipulagi. Sjá markmið 1.1 og 4.2, tilheyrandi texta og töflu 3 í kafla 4.
  • Lega og stigskipting kjarna er bindandi (sbr. staðarlýsingu í töflu 2) en nánari afmörkun þeirra skal útfærð í aðalskipulagi. Sjá markmið 1.2, tilheyrandi texta og töflu 3 í 4. kafla
  • Svæðisskipulagstillagan tekur til hafna sem eru í grunnneti samkvæmt samgönguáætlun á hverjum tíma. Sjá markmið 3.1, tilheyrandi texta og töflu 3 í 4. kafla.
  • Staðsetning orkufreks iðnaðar sem tengist flutningskerfi landsnets er bindandi en afmörkun svæðanna er nánar útfærð í aðalskipulagi. Sjá markmið 3.1, tilheyrandi texta og töflu 3 í 4. kafla.
  • Afmörkun annnarra landnotkunar sem sýnd er á kortinu, þ.e. einstakra þéttbýlisreita innan vaxtarmarka, dreifbýlis og svæða náttúru og útivistar, fer fram í aðalskipulagi út frá viðeigandi markmiðum þessa svæðisskipulags. Sjá t.d. markmið 1.1, 1.3, 3.1,4.1, 4.2, 4.3, 4.4, 5.1, 5.2, tilheyrandi texta og töflu 3 í 4. kafla.
  • Lega núverandi stofnvega (meginstofnvega og stofngatna) er bindandi. Sjá markmið 2.3, og 2.4 og tilheyrandi texta. Þessir stofnvegir og nýir sem skilgreinidir verða sem hluti af grunnneti samgangna í samgönguáætlun aðalskipulags kalla á sérstaka málsmeðferð, sjá töflu 3 í 4. kafla.
Gott nærumhverfi eykur gæði borgarbyggðar

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 5.2 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

5.2.1 Svæðisskipulagsnefnd mótar, í samvinnu við sveitarfélögin, heildstæða húsnæðisstefnu með sérstaka áherslu á framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði.


5.2.2 SSH viðheldur gagnagrunni með upplýsingum um þróun fólksfjölda, aldurssamsetningu og fjölskyldugerð með reglulegum hætti og setur í samhengi við svæðisskipulagið og framfylgd þess.

5.2.3 SSH viðheldur upplýsingum um þróun húsnæðismarkaðar og hlutfall húsnæðis á viðráðanlegu verði hverju sinni.


5.2.4 Svæðisskipulagsnefnd vinnur, í samvinnu við sveitarfélögin, fjögurra ára þróunaráætlun, þar sem fram kemur áætluð uppbygging íbúða flokkaðar eftir tegund, eignarhaldi og hvort þær falli undir viðmið um húsnæði á viðráðanlegu verði.

 

Aðildarsveitarfélög og byggðasamlög

5.2.5 Sveitarfélögin útfæri nánar húsnæðisstefnu í sínum áætlunum.


5.3.6 Sveitarfélögin leggi reglulega til upplýsingar um þróun húsnæðismarkaðar

5.3.7 Sveitarfélögin í samvinnu við ríkið leiti leiða til að auka hlutdeild húsnæðis á viðráðanlegu verði.

 

Aðkoma og aðgerðir annarra

5.2.8 Hagstofan og Þjóðskrá veiti upplýsingar um þróun lýðfræði og húsnæðismarkaðar.


5.2.9 Velferðarráðuneytið vinni með sveitarfélögum að raunhæfum úrlausnum á húsnæði á viðráðanlegu verði.

5.2.10 Ríkisskattstjóri leiti leiða til að ná utan um fjölda og staðsetningu leiguíbúða í gegnum skattframtöl.


5.2.11 Skipulagsstofnun og Mannvirkjastofnun veiti leiðbeiningar varðandi vel heppnaðar útfærslur á blönduðum hverfum og litlum ódýrum íbúðum.