Fara í efni

Úrgangur og meðhöndlun úrgangs

Verkefnið var hluti af Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020 – 2040 og fellur undir áhersluverkefni
„úrgangsmál og meðhöndlun úrgangs“ fyrir árin 2020 - 2023.

Á höfuðborgarsvæðinu eru sjö sveitarfélög sem öll höfðu sitt úrgangsflokkunar- og hirðukerfi á árinu 2021. Það að vera með mismunandi flokkun úrgangs á svæðinu gerði íbúum erfiðara að skilja kerfin og upplýsingagjöf til íbúa varðandi flokkun var flókin.

Samkvæmt breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs, sem samþykkt voru í júlí árið 2021 og ætlað er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis, varð skylt að safna við heimili lífrænum eldhúsúrgangi, plasti, og pappír og pappa. Þá varð einnig skylt að safna textíl, málmum og gleri í nærumhverfi íbúa, hvort sem er við heimili eða í grenndarstöðvum. Breytingarnar tóku gildi 1. janúar 2023.

Samræming úrgangsflokkunar var eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar höfðuborgarsvæðisins 2020-2022. Starfshópur verkefnisis var skipaður tæknimönnum frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúa frá SSH og starfsmönnum SORPU.

Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna á höfuðborgartsvæðinu skrifuðu undir yfirlýsingu um samstarf þann 11. mars 2022 þar sem fram kom að aðilar hygðust vinna í samræmi við tillögur sem fram koma í skýrslunni „Sorphirða á höfuðborgarsvæðinu: Tillögur starfshóps að samræmingu úrgangsflokkunar” sem unnin var á vettvangi SSH í samstarfi við SORPU og faghóp tæknifólks sveitarfélaganna.

Veruleg breyting varð á flokkun og endurvinnslu heimilisúrgangs í kjölfar gildistöku svonefndra hringrásarlaga í byrjun 2023. Aðgerðir til að draga úr urðun, m.a. með aukinni flokkun heimilissorps hafa þegar skilað umtalsverðum árangri þar sem við öll heimili eru tunnur fyrir lífrænan úrgang, blandað heimilissorp, pappír og plast. Grendargámum hefur verið fjölgað fyrir gler, málma og textíl. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa staðið sig vel í flokkun úrgangs frá heimilium.

Breytingarnar hafa gert Sorpu bs. kleift að hætta rekstri forvinnslulínu í móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi fyrir blandaðan úrgang á síðari hluta ársins 2023, með tilheyrandi hagræði og sparnaði.Nú getur Sorpa bs. loks flutt blandaðan úrgang, sem áður innihélt mikið magn matarleifa, út til orkuvinnslu. Þær skila því líka að nú getur Sorpa bs. afhent öllum sem vilja moltu úr GAJU, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu bs. Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu bs. um mitt ár 2024 dróst urðun þannig saman um 89% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra.

Helstu breytingar voru: 

  • Sama flokkunarkerfi gildir nú um allt land og er skylt að flokka úrgang í a.m.k. sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúrgangur, textíll, málmar, gler og spilliefni.
    • Við heimili er safnað pappír, plasti og lífúrgangi.
    • Áfram er blönduðum úrgangi safnað við heimili þar sem ýmislegt endar þar sem á ekki heima í sérsöfnuðum úrgangi. 
    • Textíl, málmum, gleri og spilliefnum skal safnað með öðrum hætti, til dæmis á grenndarstöðvum, með sérstökum söfnunardögum eða öðrum átaksverkefnum. Bæta skal sérstaklega söfnun spilliefna og raftækja. 
    • Bannað er að urða eða brenna sérsöfnuðum úrgangi enda er markmiðið að koma honum til endurnýtingar eða endurvinnslu.

 

  • Sömu merkingar eru notaðar fyrir tunnur og ílát um allt land sem á að einfalda flokkun og gera hana skilvirkari.
    • Notast verður við samnorrænar merkingar.
    • Samnorrænu merkingarnar er einnig að finna á mörgum vörum sem sýnir í hvaða flokk umbúðirnar eiga að fara að notkun lokinni.