Endurnotkun á textíl

Framleiðsla á fötum hefur nær tvöfaldast frá aldamótum og dregið hefur gríðarlega úr notkun hverrar flíkur. Hérlendis losar hver einstaklingur sig við 15-23 kíló af textíl á ári hverju. Hvað verður um allt þetta magn? Sveitarfélögin bera ábyrgð á söfnun og meðhöndlun þessa úrgangsflokks.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið veitti fé til sóknaráætlunarverkefnis sem hefði tengsl við hringrásarhagkerfið og loftslagsmál á höfuðborgarsvæðinu. Á grundvelli þess gerðu SSH og Sorpa bs. með sér samning um sérstakt tilraunaverkefni um endurnotkun á textíl. Verkefninu sem slíku er lokið og skýrsla um það hefur verið gefin út en ljóst er að miklar áskoranir snúa að meðhöndlun textílúrgangs og því verkefni að auka endurnot og endurnýtingu textíls er hvergi nærri lokið.

Svokölluð lög um hringrásarhagkerfi nr. 203/2021, sem tóku gildi árið 2023, fela sveitarfélögum aukna ábyrgð á söfnun og meðhöndlun textíls sem hluta af heimilisúrgangi. Umfang textílúrgangs hefur aukist hratt og er hann nú einn stærsti úrgangsflokkurinn frá heimilum. Flokkun hans er kostnaðarsöm og endurvinnslumarkaður takmarkaður. Þessar breytingar hafa kallað á miklar aðgerðir hjá sveitarfélögum landsins.
SORPA tók árið 2024 við fatasöfnun af Rauða krossinum og annast nú móttöku og flokkun alls textílúrgangs á höfuðborgarsvæðinu, en alls er um að ræða um 3.000 tonn á ári. Kostnaður við söfnun, flokkun og útflutning textílúrgangs nemur um 300 milljónum króna árlega og fer hækkandi. Samhliða hafa gæði textíls minnkað sem dregur úr möguleikum til endurnýtingar.
Í tengslum við tilraunaverkefnið var komið upp nýrri flokkunaraðstöðu í Gufunesi og fataflokkunarlager í Góða hirðinum. Þar er textíll sem er hæfur til endurnota gerður aðgengilegur fyrir hönnuði, skóla og sprotafyrirtæki. Verkefnið skilaði nokkrum árangri í auknum endurnotum – sala á notuðum fötum í Góða hirðinum jókst t.a.m. um 91% milli ágúst 2024 og 2025 og fjölmargir samstarfsaðilar, m.a. Listaháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík, hafa nýtt textíl í skapandi verkefni.
Þá hefur verkefnið og málefnið sem slíkt verið kynnt með margvíslegum hætti. Því var ýtt úr vör með málþinginu: „Hvað eigum við að gera við allan þennan textíl“ og hefur einnig verið kynnt á málþingum og ráðstefnum auk þess sem fjölmiðlaumfjöllun hefur verið nokkur.
Helstu áskoranir við meðhöndlun textílúrgangs tengjast miklum kostnaði, vaxandi magni úrgangs og minnkandi gæðum efnis. Þá er flokkun afar vinnu- og rýmisfrek og krefst aukinnar tæknivæðingar. Endurvinnslumarkaður fyrir skemmdan textíl er erfiður og stór hluti efnisins eða um 95% fer úr landi til orkuvinnslu eða endurvinnslu.
Í niðurstöðum skýrslu um tilraunaverkefnið er lagt til að sett verði á úrvinnslugjald og framleiðendaábyrgð á textíl, virðisaukaskattur á viðgerðir og viðhald textílvarnings verði felldur niður, og fræðsla um áhrif textíls á umhverfið efld. Mikilvægt er að auka sérstaklega neysluvitund neytenda en áætlað er að hver einstaklingur fargi 15-23 kílóum af textíl á ári. Einnig er brýnt að tryggja söfnun á nothæfum textíl með sérmerktum gámum og byggja upp innlendan markað fyrir endurnýtingu og viðgerðir.
Tilraunaverkefnið hefur lagt grunn að áframhaldandi þróun í meðhöndlun textíls og sýnt fram á að úrgangsflokkur sem hingað til hefur aðeins falið í sér kostnað getur verið nýttur sem auðlind í hringrásarhagkerfinu sé rétt haldið á málum. Þannig eru tækifæri til að byggja upp frekari markað með hráefni til endurvinnslu og endurnýtingar en mikill áhugi er á slíku, en slík nýting er vissulega háð vandaðri flokkun, sem aftur kallar á bætta aðstöðu og tækjabúnað.
Ýmsar uppákomur voru tengdar verkefninu:
Meðal annars þann 7.-13. október 2024 setti Textílbarinn upp búð, vinnustofu og sýningu í Góða hirðinum. Var gestum boðið að spreyta sig á ýmiss konar verkefnum með endurnotanlegum textil.
Stofnendur og eigendur Textilbarnsins eru Hildigunnur Sigurðardóttir og Hrafnhildur Gísladóttir.
Myndir frá viðburðinum