Fara í efni

1.2 Meginþunga vaxtar verður beint á miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði. Hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66% af allri borgarbyggðinni

Meginþunga uppbyggingar verður beint á svæði meðfram samgöngu- og þróunarási sbr. viðmið í töflu 1. Þar verða miðkjarnar og vel tengd samgöngumiðuð þróunarsvæði með
þéttri byggð fyrir íbúðir, störf og nærþjónustu. Þessar áherslur styðja við notkun almenningssamgangna og að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Miðkjarnarnir og samgöngumiðuð þróunarsvæði verða lykilsvæði fyrir uppbyggingu, blönduð byggð og miðstöð verslunar og þjónustu líkt og fram kemur í töflu 2. Nauðsynlegt er að starfsemi sem ýtir undir fjölbreytta verslun og þjónustu sé beint inn á þessi svæði. Stefna um fjölda, stigskiptingu og gróf staðsetning miðkjarna er fest í svæðisskipulagi.

Fylgst verður grannt með uppbyggingu á miðkjörnum og öðrum samgöngumiðuðum þróunarsvæðum. Gerð er grein fyrir svæðum sem skilgreind hafa verið sem mögulegir miðkjarnar og samgöngumiðuð þróunarsvæði í fylgiriti 7 um byggðarþróun, þar er einnig kort sem sýnir stöðuna 2012. Skemmri þróunaráætlanir dragi fram hversu mikil uppbygging er áætluð á þeim svæðum. 

Verði miðstöð innanlandsflugs áfram í Vatnsmýrinni er mikilvægt að Reykjavíkurborg beini uppbyggingu á svæði sem eru við aðra miðkjarna eða eru samgöngumiðuð. Leiðakerfi
almenningssamgangna verður þróað í takt við þróunaráætlanir með það að markmiði að fjölga samgöngumiðuðum þróunarsvæðum innan höfuðborgarsvæðisins. Svæðisskipulagsnefnd viðheldur upplýsingum um hvort þróun uppbyggingar er eins og að er stefnt og gerir þær aðgengilegar.

Við útfærslur miðkjarna og samgöngumiðaðra þróunarsvæða í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

Samgöngumiðuð þróunarsvæði eru reitir sem eru tengdir við almenningssamgöngur, Borgarlínu eða hefðbundinn strætó með hátt þjónustustig

Hagkvæmur vöxtur höfuðborgarsvæðisins

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 1.2 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH 

1.2.1 Svæðisskipulagsnefnd viðheldur kortagrunni og lykiltölum um staðsetningu og uppbyggingu íbúða og starfa í miðkjörnum og öðrum samgöngumiðuðum þróunarsvæðum með hliðsjón af töflu 1.


1.2.2 Svæðisskipulagsnefnd setur fram leiðbeinandi viðmið um útfærslu á miðkjörnum og öðrum samgöngumiðuðum þróunarsvæðum.

1.2.3 Svæðisskipulagsnefnd setur fram fjögurra ára þróunaráætlun í samvinnu við sveitarfélögin. Í áætluninni komi fram fjöldi íbúða og starfa í miðkjörnum og öðrum samgöngumiðuðum þróunarsvæðum með hliðsjón af töflu 1.

 

 

Sveitarfélög og byggðarsamlög

1.2.4 Sveitarfélög útfæra markmið 1.2 í sínu aðalskipulagi og gera sérstaklega grein fyrir:

• Nánari útfærslu á staðsetningu og afmörkun miðkjarna og samgöngumiðaðra þróunarsvæða á skipulagsuppdrætti aðalskipulags, með hliðsjón af korti 2 og töflu 2.

• Nánari áætlun um uppbyggingu íbúða og starfa í miðkjörnum og á öðrum samgöngumiðuðum þróunarsvæðum, með hliðsjón af töflu 1.

1.2.5 Sveitarfélögin og Strætó bs. vinni markvisst að eflingu þjónustustigs almenningssamgangna í takt við fjögurra ára þróunaráætlanir.


1.2.6 Sveitarfélögin og Strætó bs. leggja til lykiltölur um húsnæðisuppbyggingu og þróun almenningssamgangna.

 

 

Aðkoma og aðgerðir annarra

1.2.7 Ríkið og stofnanir þess beini starfsemi sinni á miðkjarna og samgöngumiðuð þróunarsvæði.

 

Skýringarmynd

Mynd 5 Miðkjarnar og samgöngumiðuð þróunarsvæði

Meðfram nýju hágæða almenningssamgöngukerfi, Borgarlínu, myndast þétt blönduð byggð. Þessi byggðarlína nefnist samgöngu- og þróunarás. Mesti þéttleiki byggðarinnar er í kjörnum og við biðstöðvar. Önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði geta myndast utan samgöngu- og þróunarása þar sem stætó er með hátt þjónustustig. Við útfærslu samgöngu- og þróunarása í aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.