Fara í efni

4.4 Á höfuðborgarsvæðinu verði ávallt nægt framboð af hreinu ómeðhöndluðu drykkjarvatni með markvissri vernd vatnsbóla og aukinni samræmingu við nýtingu auðlindarinnar

Stuðla verður að hámarkshollustu neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla á svæðinu. Með því verður tryggt að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi alltaf þau lífsgæði að geta gengið að hreinu ómeðhöndluðu neysluvatni vísu. Neysluvatnsauðlindin er sameiginleg fyrir mest allt höfuðborgarsvæðið. Mikilvægt er að auka samstarf um nýtingu auðlindarinnar og vinna að aðgerðum sem stuðla að auknu öryggi neytenda (Fylgirit 2).

Sameiginleg vernd er á neysluvatnsbólum sem þjóna borgarbyggðinni og birtist hún í heilbrigðissamþykkt (Fylgirit 2). Sveitarfélögin verða að innleiða mörk vatnsverndarsvæða og reglu samþykktarinnar í sínar aðalskipulagsáætlanir. Áhrifasvæði vatnsbóla ná út fyrir lögsögumörk höfuðborgarsvæðisins. Nauðsynlegt er að eiga samráð við sveitarfélagið Ölfus og Grindavíkurbæ um möguleg áhrif landnýtingar og framkvæmda innan skilgreindra svæða á neysluvatn höfuðborgarsvæðisins. Ýmis mannvirki eru á vatnsverndarsvæðum, þar er m.a. einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins, Suðurlandsvegur. Þar er einnig Bláfjallavegur sem liggur að stærsta skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins og ferðamannasvæði við Þríhnúka. Huga þarf að mengunarvörnum við hönnun og endurgerð vega innan vatnsverndarsvæða til að draga úr líkum á olíumengun vegna umferðar. Einnig þarf að grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða þar sem hætta er á útafakstri (Fylgirit 2).

Nær brunnsvæðum á megin vatnstökusvæði höfuðborgarsvæðisins eru vegir sem liggja m.a. að skipulögðum útivistarsvæðum, skógræktarsvæðum, frístundabyggð og brunnsvæðum. Einnig eru á vatnsverndarsvæðum háspennulínur og áform uppi um að endurnýja þær. Skilgreint verður mannvirkjabelti um vatnsverndarsvæðin með það að markmiði að öll umfangsmikil mannvirki sem fela í sér hættu á mengun séu innan þess. Með því er stuðlað að mótvægisaðgerðum og viðbrögð við mengunaróhöppum verði markvissari.

Huga þarf að mengunarvörnum við hönnun og endurgerð vega innan vatnsverndarsvæða til að draga úr líkum á olíumengun vegna umferðar. Einnig þarf að grípa til viðeigandi
mótvægisaðgerða þar sem hætta er á útafakstri. Stefnt er að því að háspennulínum innan höfuðborgarsvæðisins verði ekki fjölgað og frekar horft til þess að leggja háspennustrengi í jörðu eða auka flutningsgetu núverandi háspennulína með hærri spennu.

Skipulagsáætlanir sveitarfélaga verða að taka mið af ákvæðum vatnsverndar um viðhald og frágang vega, vegrið ofan brunnsvæða og fjarlægð bílastæða frá brunnsvæðum.
Öryggissvæði eru nýr flokkur vatnsverndarsvæða og eru þau út frá greiningu gagnvart yfirborðsvatni annars vegar og grunnvatni hins vegar. Þau eru skilgreind á svæðum þar sem mengun er talin mögulega geta borist af yfirborði með írennsli til grunnvatns og dreifst með grunnvatnsstraumum til vatnsbóla. Mikilvægt er að gæta sérstakrar varúðar við skipulag byggðar, þ.m.t. íbúðabyggðar, framkvæmdir og starfsemi innan öryggissvæða. Nánar er gerð grein fyrir verndarsvæðum í fylgiriti 2.

Við útfærslur vatnsverndarsvæða og mannvirkjabeltis í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

Þemakort

Kort 10 -Vatnsverndarsvæði

Heilnæmt umhverfi og heilbrigt líf

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 4.4 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

4.4.1 Svæðisskipulagsnefnd viðheldur, í samvinnu við framkvæmdastjórn vatnsverndar, kortagrunni yfir samþykkt vatnsverndarsvæði og önnur áhrifasvæði vatnsbóla.


4.4.2 Svæðisskipulagsnefnd upplýsir vatnsveitur um breytingar á mannfjöldaspám við gerð fjögurra ára þróunaráætlunar og leitar eftir sameiginlegu mati á bestu nýtingu auðlindarinnar.


4.4.3 SSH leitar leiða til að auka samvinnu vatnsveitna við að tryggja að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eigi alltaf kost á ómeðhöndluðu vatni jafnvel þótt óhapp verði í einhverju vatnsbóli.

4.4.4 SSH vinnur með framkvæmdastjórn vatnsverndar að aukinni samræmingu eftirlits og viðbragðsáætlana á vatnsverndarsvæðum. Skilgreina þarf vegi og samgöngur um vatnsverndarsvæði sérstaklega m.t.t. hættumats.


4.4.5 Svæðisskipulagsnefnd vinnur með sveitarfélögum og framkvæmastjórn vatnsverndar að skilgreiningu á mannvirkjabelti um vatnsverndarsvæðin. Stefna ber að því að öll umfangsmikil mannvirki sem fela í sér hættu á mengun séu inni á skilgreindu mannvirkjabelti til að stuðla að markvissari mótvægisaðgerðum og viðbrögðum við mengunaróhöppum. Lega mannvirkjabeltis skal bundin í svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins þegar hún liggur fyrir.

 

Aðildarsveitarfélög og byggðasamlög

4.4.6 Sveitarfélögin innleiða mörk vatnsverndarsvæða og reglur heilbrigðissamþykktarinnar í sínar skipulagsáætlanir og vinna að því að markmiðum vatnsverndar verði ekki ógnað með landnotkun eða starfsemi innan vatnsverndarsvæða.


4.4.7 Sveitarfélögin taki mið af skilgreindu mannvirkjabelti á vatnsverndarsvæðum í sínum skipulagsáætlunum og við veitingu framkvæmdaleyfa.


4.4.8 Vatnsveitur sveitarfélaganna leiti leiða til að koma á hringtengingu í neysluvatnskerfinu þannig að hægt sé að veita vatni frá mismunandi vatnsbólum til einstakra staða í dreifikerfinu.

4.4.9 Sveitarfélög, vatnsveitur og framkvæmdastjórn vatnsverndar vinna áætlun um viðhald rennslislíkans með það að markmiði að ákvarða með kerfisbundnum hætti hvar helst skuli bera niður við mælingar og aðra upplýsingaöflun til að treysta frekar stoðir við skipulag vatnsverndar til framtíðar.


4.4.10 Sveitarfélögin og framkvæmdastjórn vatnsverndar meti þörf fyrir ákvæði um staðsetningu bílastæða á Heiðmerkursvæðinu og lokun vega sé þeim ekki viðhaldið þar sem akstur um þá skapi of mikla hættu vegna verndunar vatnsgæða auk annarra takmarkana á umferð.

 

 

Aðkoma og aðgerðir annarra

4.4.11 Vegagerðin vinni í samvinnu við sveitarfélögin að mótvægisaðgerðum og reglubundinni vöktun á mengun frá vegum innan vatnsverndarsvæða. Sérstaka áherslu þarf að leggja á mótvægisaðgerðir á Suðurlandsvegi og Bláfjallavegi. 

4.4.12 Landsnet taki mið af skilgreindu mannvirkjabelti við hönnun og lagningu háspennulína. Unnið verði að því að núverandi háspennulínur flytjist á mannvirkjabeltið þegar kemur að eðlilegri endurnýjun.