Fara í efni

2.4 Meginstofnvegir tryggja greiða og örugga umferð fólks og vöru

Meirihluti ferða innan höfuðborgarsvæðisins 2040 verður á einkabíl þótt ferðavenjur breytist umtalsvert með þróun samgöngukerfa og byggðar sem stefnt er að og vöxtur bílaumferðar verði mun hægari en síðustu áratugi. Stofnvegakerfið gegnir áfram mjög mikilvægu hlutverki í flutningum fólks og vöru og í hugsanlegri rýmingu höfuðborgarsvæðisins á hættu- og neyðartímum.


Stofnvegir á höfuðborgarsvæðinu eiga að mynda heildstætt tveggja laga kerfi. Stofnvegir verða flokkaðir í meginstofnvegi og stofngötur með mismunandi áherslum fyrir hvorn flokk fyrir sig auk þess sem ráðist verður í frekari undirflokkun. Meginstofnvegir tryggja greiða og örugga umferð fólks og vöru í gegnum höfuðborgarsvæðið og að/frá svæðinu með áherslu á alþjóðlegar megingáttir samgöngukerfis landsins. Aðrir stofnvegir, þ.e. stofngötur höfuðborgarsvæðisins, geta þróast með bætta sambúð þéttbýlis og umferðar að
leiðarljósi (fylgirit 6).


Meginstofnvegur liggur norður suður í gegnum svæðið. Við þennan stofnveg er aðal inn- og útflutningshöfn landsins og aðal inn- og útflutningsflugvöllur landsins. Sá meginstofnvegur samanstendur af Reykjanesbraut frá Sundahöfn og suður úr og Vesturlandsvegi frá Reykjanesbraut og norður úr. Þriðja megintenging höfuðborgarsvæðisins við aðliggjandi svæði, Suðurlandsvegur frá Vesturlandsvegi og austur úr, er einnig í fyrsta flokki meginstofnvega. Á þessum meginstofnvegum verður umfram aðra meginstofnvegi og stofngötur hugað sérstaklega að greiðu og öruggu flæði einkaog þungaumferðar.


Vesturlandsvegur um sundin (Sundabraut) og tenging Reykjanesbrautar ofan byggðar á sunnanverðu höfuðborgarsvæðinu til að beina fjarumferð framhjá þéttbýli, þ.e. nýjar útfærslur meginstofnvega eins og þeir eru í dag, verða áfram til skoðunar. Sveitarfélögin taka frá rými í skipulagsáætlunum fyrir mögulegar tilfærslur þessara meginstofnvega. Gengið verður út frá að Sundabraut verði hluti af norður-suður meginstofnvegi, verði hún byggð á skipulagstímabilinu, en samhliða fari núverandi Vesturlandsvegur norðan Suðurlandsvegar úr flokki meginstofnvega. Sama gildi um mögulega nýja útfærslu Reykjanesbrautar.


Annar flokkur meginstofnvega myndi hringtengingu innan höfuðborgarsvæðisins. Sú hringtenging samanstendur af Fjarðarhrauni, Hafnarfjarðarvegi, Kringlumýrarbraut sunnan Miklubrautar og Miklubraut austan Kringlumýrarbrautar.


Aðrir stofnvegir en þeir sem taldir eru að ofan verða í flokki stofngatna. Við endurbætur og endurhönnun á stofngötum verður minni áhersla lögð á framkvæmdir sem hafa það markmið að auka afkastagetu en meiri á aðgerðir sem hafa það markmið að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar á nærumhverfið og smærri staðbundnar aðgerðir til að bæta
umferðarflæði. Afkastageta stofngatna verður ekki minnkuð nema að greining sýni að ásættanlegt þjónustustig náist áfram eða aðilar séu sammála um annað. Á köflum geta þessar stofngötur þróast yfir í borgargötur og kannaðir verða möguleikar á aukinni nýtingu aðliggjandi svæða undir byggð. Á það sérstaklega við þar sem stofngötur liggja um miðkjarna og samgöngumiðuð þróunarsvæði (fylgirit 6).


Við útfærslur meginstofnvega og stofngatna í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

Stofnvegir á höfuðborgarsvæðinu eiga að mynda heildstætt tveggja laga kerfi, meginstofnvega og stofngatna sem verða endurhannaðar eftir því sem byggð og samgöngur þróast

Þemakort

Kort 4 -Stofnvegir

Skilvirkar samgöngur og nútímalegt samgöngukerf

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 2.4 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

2.4.1 Svæðisskipulagsnefnd, í samvinnu við Vegagerðina, greinir nánar framtíðarsýn um tveggja laga stofnvegakerfi á svæðinu: meginstofnvegi og stofngötur. Meginstofnvegum og stofngötum verður jafnframt skipt í undirflokka í samræmi við nærumhverfi og mikilvægi á svæðisvísu. Í kjölfar ástandsgreiningar verða ásættanlegt þjónustustig, hámarkshraði, hámarksfjöldi tenginga og fleiri tæknileg atriði skilgreind fyrir hvern flokk fyrir sig. Þeirri vinnu á að ljúka fyrir lok árs 2016. Sveitarfélögin innleiða niðurstöður vinnunnar í aðalskipulagsáætlanir að því loknu. 

2.4.2 Svæðisskipulagsnefnd vinnur greiningu á núverandi stöðu samgangna á svæðinu og umferðarspár við mótun fjögurra ára þróunaráætlunar. Á grundvelli þeirrar vinnu og stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 

setur nefndin fram tillögur að forgangsröðun í samgöngumálum á tímabilinu. Þær tillögur verði grundvöllur viðræðna við ríkið um endurskoðun samgönguáætlunar og mótun annarra opinberra áætlana.


2.4.3 Svæðisskipulagsnefnd vinnur greiningu á almannahættu vegna náttúruvár á höfuðborgarsvæðinu og rýmingaráætlun í samvinnu við almannavarnir. Sú áætlun og niðurstöður greiningar á flöskuhálsum í samgöngukerfinu við rýmingu verði til hliðsjónar í samvinnu við ríkið við endurskoðun samgönguáætlunar

 

Sveitarfélög og byggðasamlög

2.4.4 Sveitarfélögin innleiða í aðalskipulagsáætlanir flokkun stofnvega á höfuðborgarsvæðinu og aðrar niðurstöður vinnu sbr. aðgerð 2.4.1 og útfæra nánar.


2.4.5 Sveitarfélögin tryggja öruggt og gott flæði bílaumferðar á meginstofnvegum. Sveitarfélögin taka frá rými í skipulagsáætlunum fyrir nýjar útfærslur meginstofnvega sem áfram verða til skoðunar, þ.e. Vesturlandsveg um sundin
(Sundabraut) og tengingu Reykjanesbrautar ofan byggðar á sunnanverðu höfuðborgarsvæðinu.


2.4.6 Sveitarfélögin í samráði við Vegagerðina vinna tillögur að endurhönnun meginstofnvega og stofngatna, eftir því sem byggð og samgöngur þróast. Áherslur verða á aðgerðir og framkvæmdir sem geta aukið umferðaröryggi og dregið úr neikvæðum áhrifum umferðar á nærumhverfið og smærri staðbundnar aðgerðir til að bæta umferðarflæði. Afkastageta stofnvega sem eru á forræði Vegagerðarinnar verður ekki minnkuð nema að greining sýni að ásættanlegt þjónustustig, sbr. aðgerð 2.4.1, náist áfram eða aðilar séu sammála um annað.


2.4.7 Tillögurnar sbr. 2.4.6 verði grundvöllur samvinnu við ríkið við endurskoðun samgönguáætlunar og mótun annarra opinberra áætlana. Sveitarfélögin kanni möguleika á aukinni nýtingu aðliggjandi svæða undir byggð, sérstaklega þar sem meginstofnvegir og stofngötur liggja um miðkjarna og samgöngumiðuð þróunarsvæði.

Aðkoma og aðgerðir annarra

2.4.8 Ríkið verði samráðsaðili við gerð fjögurra ára þróunaráætlana sveitarfélaganna og taki mið af tillögum sveitarfélaganna um forgangsröðun aðgerða á meginstofnvegum og stofngötum við reglubundna endurskoðun samgönguáætlunar hverju sinni.


2.4.9 Almannavarnir höfuðborgarsvæðisins og tengdir aðilar vinni með sveitarfélögunum að verkefni um rýmingu
á höfuðborgarsvæðinu og frekari rannsóknum því tengdu.


2.4.10 Ríkið vinni að því að þróa áfram og festa í sessi formlegt verklag við ákvarðanir um uppbyggingu vegakerfisins
í þéttbýli þar sem kostnaður og ábati mismunandi leiða að markmiðum samgönguyfirvalda er borinn saman. 

2.4.11 Samgönguáætlun leggi áherslu á að tryggja greiðar tengingar höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar við alþjóðlegar megingáttir, Reykjavíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll.


2.1.12 Samgönguyfirvöld vinni aðgerðaáætlun um aukin loftgæði í helstu þéttbýliskjörnum í samstarfi við sveitarfélögin, viðhalda kortlagningu umferðarhávaða og vinni að lagasetningu sem gerir sveitarfélögum kleift að skilgreina sérstök umhverfissvæði og um leið að takmarka þar umferð til að auka loftgæði