Fara í efni

Samþykktir SSH

 

SAMÞYKKTIR SAMTAKA SVEITARFÉLAGA Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU

 1. gr.  Heiti og varnarþing

  Samtökin heita „Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu” skammstafað SSH. Varnarþing þeirra skal vera í því sveitarfélagi þar sem aðalskrifstofa SSH er á hverjum tíma.

  Eftirtalin sveitarfélög eru aðilar að SSH: Garðabær, Hafnarfjörður, Kjósarhreppur, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes.

  SSH starfa á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga um landshlutasamtök sveitarfélaga eins og þau eru í gildi á hverjum tíma.

 2. gr.  Tilgangur og markmið

  SSH eru sameiginlegur málsvari aðildarsveitarfélaganna og gæta hagsmuna þeirra. SSH eru samstarfs- og samvinnuvettvangur aðildarsveitarfélaganna vegna sameiginlegra verkefna og hagsmunamála þeirra. SSH eru sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna til að fjalla um rekstur þeirra samstarfsverkefna, t.d. byggðasamlaga, sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni.

  Skal starfsemi SSH m.a. stuðla að eftirfarandi markmiðum:
  - Að efla samstarf sveitarfélaganna og stuðla að samskiptum og samstarfi sveitarstjórnarmanna, sveitarstjórnarnefnda og starfsmanna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
  - Að höfuðborgarsvæðið sé samkeppnishæft gagnvart erlendum borgarsvæðum og bjóði upp á nýsköpun, atvinnulíf, innviði og lífskjör sem eru á borð við þau bestu í heiminum.

  SSH skulu hafa frumkvæði að vöktun, greiningu, umræðu og kynningu á málum sem varða sameiginlega hagsmuni aðildarsveitarfélaga. Með sama hætti skulu SSH fylgjast með nýjungum á sviði sveitarstjórnarmála jafnt innalands sem erlendis og miðla þeim til aðildarsveitarfélaganna.

  SSH skulu standa fyrir reglubundnu samráði við ríkisvaldið, ráðuneyti og stofnanir um málefni er varða hag sveitarfélaganna og vinna með þeim hætti að framþróun og hagsmunum höfuðborgarsvæðisins.

 3. gr.  Aðalfundur

  Aðalfundur SSH skal haldinn eigi síðar en 15. nóvember ár hvert.

  Eftirfarandi aðilar hafa málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt á aðalfundi:

  1. Stjórnarmenn SSH, og varamenn í forföllum þeirra.
  2. Allir kjörnir sveitarstjórnarmenn aðildarsveitarfélaga SSH, og varamenn í forföllum þeirra.

  Eftirtaldir liðir skulu vera á dagskrá aðalfundar:

  1. Skýrsla stjórnar um liðið starfsár.
  2. Endurskoðaðir reikningar fyrir næstliðið almanaksár.
  3. Starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
  4. Tillaga um árgjald vegna næsta árs.
  5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga úr hópi kjörinna fulltrúa.
  6. Kosning löggilts endurskoðanda.
  7. Önnur mál sem stjórn SSH eða einstök sveitarfélög óska eftir að tekin verði til umræðu á aðalfundi.

  Boðað skal til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara. Skulu dagskrá og fundargögn aðalfundar vera aðgengileg fulltrúum á aðalfundi eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund.

  Óski fulltrúar á aðalfundi þess að leggja tiltekin mál eða tillögur fyrir fundinn þarf skrifleg beiðni þess efnis að berast aðalskrifstofu SSH a.m.k. fimm dögum fyrir boðaðan aðalfund.

 4. gr.  Stjórn

  Stjórn SSH skal skipuð framkvæmdastjórum þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að SSH hverju sinni. Hver sveitarstjórn tilnefnir varamann úr röðum kjörinna sveitarstjórnarmanna.

  Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn og skipta aðildarsveitarfélögin með sér formennskunni. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti.
  Stjórn skal setja sér starfsreglur þar sem m.a. verði fjallað um boðun og tíðni stjórnarfunda, ályktunarhæfni þeirra og vægi atkvæða við ákvarðanatöku.

 5. gr.  Ráð og nefndir

  Stjórn SSH getur tilnefnt starfsnefndir eða verkefnahópa til að annast umsjón með framkvæmd einstakra verkefna. Við skipan slíkra nefnda skal kveða á um hlutverk, starfstíma og verklok viðkomandi nefndar.

  Vegna ýmissa samrekstrarverkefna sveitarfélaganna, hvort sem um byggðasamlög eða annars konar rekstrarform er að ræða, er jafnframt heimilt að skipa sérstök stefnu- eða fulltrúaráð. Hlutverk slíkra ráða verði þá nánar mótað eftir því sem við á í hverju tilviki, en ætla má að þau myndi virkan samráðsvettvang og mikilvæga tengingu milli stjórna og eigenda, þ.e. sveitarfélaganna, komi að stefnumótun, innleiðingu stefnu og fari með ákveðið eftirlitshlutverk. Um skipan, hlutverk, ábyrgð og nánari starfstilhögun skal kveðið á um í stofnskjölum viðkomandi rekstrareininga eftir því sem við á í hverju tilviki.

 6. gr.  Framkvæmdastjóri

  Stjórn SSH ræður framkvæmdastjóra samtakanna. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk með samþykki stjórnar SSH. Um skyldur og réttindi starfsfólks SSH, þ.m.t. launakjör skal höfð hliðsjón af gildandi reglum og kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélög hverju sinni.

 7. gr.  Fjármál

  Eigi síðar en í lok októbermánaðar ár hvert skal stjórn senda aðildarsveitarfélögum SSH áætlun um starfsemi samtakanna fyrir næsta ár ásamt fjárhagsáætlun sem afgreiddar skulu á aðalfundi SSH og staðfestar í sveitarstjórnum allra aðildarsveitarfélaganna. Hafni sveitarstjórn að staðfesta samþykkta fjárhagsáætlun skal stjórn SSH boða til aukaaðalfundar innan fjögurra vikna.

  Rekstur samtakanna er fjármagnaður með greiðslum aðildarsveitarfélaganna í hlutfalli við íbúatölu sbr. staðfesta fjárhagsáætlun, framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, og öðrum sértækum framlögum ef við á. Sveitarstjórnir skuldbinda sig til að greiða árgjald til SSH í upphafi hvers reikningsárs.

  Allur kostnaður utan samþykktrar fjárhagsáætlunar sem fellur á SSH skal samþykktur af stjórn samtakanna og greiðist hann í hlutfalli við íbúatölu aðildarsveitarfélaganna. Stjórn og framkvæmdastjóra er skylt að fylgja fjárhagsáætlun hvers árs.

  Ef stjórn SSH samþykkir að taka upp samstarf um einstaka málaflokka og kostnaður við verkefnið nemur sem svarar yfir 5% af heildarútgjöldum SSH á ársgrundvelli, skal bera það upp til samþykktar í sveitarstjórnum allra aðildarsveitarfélaganna.

  Stjórn SSH getur aldrei bundið aðildarsveitarfélögin nokkrum fjárhagsskuld-bindingum, sem eru utan staðfestrar fjárhagsáætlunar eða eru umfram ráðstöfunarheimildir stjórnar, nema með formlegu samþykki allra aðildarsveitarfélaganna.

  Tillögum stjórnar SSH um þau mál sem falla utan fjárhagsáætlunar, og eru umfram ráðstöfunarheimildir stjórnar, skal komið án tafar til sveitarstjórna til afgreiðslu eða umsagnar.

  Sérstakt reikningshald skal fært fyrir SSH og skal það endurskoðað af kjörnum endurskoðendum samtakanna, síðan lagt fyrir stjórnina og að lokum fyrir aðalfund til samþykktar.

 8. gr.  Gildistaka

  Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi SSH, enda hafi breytingartillögur verið kynntar með minnst mánaðarfyrirvara og þær hlotið samþykki með 2/3 hlutum atkvæða á aðalfundi.

  Með samþykki samþykkta þessara fellur úr gildi eldri samþykkt SSH.

Samþykkt á aðalfundi SSH 18. nóvember 2022

Samþykktir SSH