Fara í efni

Heimilislausir með miklar og flóknar þjónustuþarfir

Verkefni í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir (HMFÞ).

Tilurð og markmið verkefnis HMFÞ

Á vormánuðum 2022 var tekin ákvörðun um að ráða tímabundið verkefnastjóra til þess að gera úttekt á stöðu heimilislausra í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Að verkefninu stóðu Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær og Seltjarnarnes.

Markmiðið var að greina hóp þeirra einstaklinga sem eru í brýnni húsnæðisþörf og með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Eins fólst í verkefninu greining þeirra húsnæðisúrræða sem fyrir hendi eru í sveitarfélögunum og gerð tillagna að úrbótum til að mæta þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem teljast til markhóps verkefnisins. Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir var verkefnastjóri þessa verkefnis og tók hún til starfa 1. ágúst 2022.

Heimilislausir með miklar og flóknar þjónustuþarfir

Málefni heimilislausra hafa verið í brennidepli undanfarin misseri bæði hér og landi og erlendis. Evrópuþingið hefur til að mynda sett það sem markmið að ríki Evrópusambandsins vinni að því, á heimavelli, að útrýma heimilisleysi fyrir árið 2030.

Hugtakið heimilisleysi hefur breiða skírskotun og því hefur verið leitast eftir því við stefnumótun og áætlanagerð fyrir málaflokkinn að afmarka hugtakið og þann hóp sem fellur þar undir enn frekar. Við framangreint verkefni var lögð áhersla á að skoða sérstaklega stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Er þar átt við þann hóp heimilislausra sem er hvað verst staddur, er upp á neyðargistingu kominn og í brýnni þörf fyrir húsnæði og sértæka þjónustu. Eins og kemur fram í stefnu málaflokksins hjá Reykjavíkurborg 2019-2025 einkennist hópurinn af því að hafa af mismunandi ástæðum misst færni til að halda heimili og eiga fastan samastað. Geðrænn vandi og/eða fíknivandi einkenna einnig hópinn auk þess sem oft er um að ræða mikil líkamleg veikindi, sögu um áföll og félagslega erfiðleika. Hópurinn sem um ræðir er jaðarsettur í samfélaginu.

 

Vinna við verkefnið hófst í ágúst 2022 og lá skýrsla um það fyrir í mars 2023.