Fara í efni

5.1 Borgarbyggðin mótist af viðmiðum 20 mínútna hverfisins. Byggð og umhverfi verður mótað út frá mannlegum þörfum og mælikvarða sem fellur að landslagi og styður samskipti og útiveru

Í stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 er lögð sérstök áhersla á tuttugu mínútna hverfi. Sterkt hverfi er eitt lykilatriðið til að vel takist til að samþætta byggðarmynstur og vaxandi notkun almenningssamgangna. Það er gert með því að styrkja nærumhverfið þannig að íbúar geti sinnt sínum daglegu athöfnum í nálægð við heimili sitt. Í kjarna hverfisins er þétt byggð með fjölbreyttri starfsemi og miðstöð almenningssamgangna. Þar er borgargata hverfisins, með umhverfi sem ýtir undir iðandi mannlíf. Um kjarnann liggur Borgarlínan og/eða strætóleið með háu þjónustustigi. Leggja þarf áherslu á göngu- og hjólavænt umhverfi frá kjarna og út í hverfið.

Önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði innan hverfisins geta myndast við stoppistöðvar almenningssamgangna. Mikilvægt er að með útfærslu skipulags og umhverfis sé lögð áhersla á atriði sem hvetja til gangandi og hjólandi umferðar. Með blöndun byggðar verði stuðlað að þjónustu og atvinnutækifærum. Blöndun byggðar snýr ekki einungis að breytilegri starfsemi, heldur einnig því að húsnæði sé fjölbreytilegt og ýti undir félagslega blöndun og fjölbreytni innan hverfa. Vel útfærð, skjólgóð og sólrík almenningsrými hvetja íbúa til útiveru og gera þeim fært að sinna helstu erindum gangandi eða hjólandi.

Með aukinni nærþjónustu, betri almenningsrýmum og fleiri íbúum sem sinna sínum daglegu erindum innan hverfis verður iðandi mannlíf og umhverfið líflegra (Fylgirit 7). Miðað verður við að íbúar eigi ekki lengra að sækja í kjarna en sem nemur tuttugu mínútna göngu. Nærþjónusta dreifist víðar svo íbúar eigi kost á nauðsynlegustu þjónustu eins og leikskóla, grunnskóla, íþrótta- og tómstundastarfsemi og matvöruverslun innan 5–10 mínútna göngufjarlægðar.

Lögð verði áhersla á að byggð verði felld vel að umhverfi og þétting taki mið af aðstæðum. Þétting byggðar getur bætt aðstæður, aukið skjól og gæði útivistarsvæða og styrkt rýmismyndun í þegar byggðum hverfum. Þó skal við þéttingu gætaþess að vernda staðbundin einkenni og byggingararf og halda í séreinkenni sveitarfélaganna. Með þéttari byggð er brýnt að tryggja gæði byggðar og ytra umhverfis. Leik- og dvalarsvæði og göngu- og hjólaleiðir verði í nánum tengslum við heimili. Æskilegt er að innan hverfis verði garðlönd til að stuðla að sjálfbærri ræktun.

Við útfærslur tuttugu mínútna hverfisins í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

Skýringarmynd

Mynd 11 -20 mínútna hverfið

Innan 20 mínútna hverfisins verður gott framboð af fjölbreyttum húsakosti og öll helsta þjónusta. Miðað verður við að íbúar eigi ekki lengra að sækja í kjarna en sem nemur tuttugu mínútna göngu. Nærþjónusta dreifist víðar svo íbúar eig kost á nauðsynlegustu þjónustu eins og leikskóla, grunnskóla, íþrótta- og tómstundastarfsemi og matvöruverslun innan 5-10 mínútna göngufjarlægðar.

Gott nærumhverfi eykur gæði borgarbyggðar

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 5.1 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

5.1.1 Svæðisskipulagsnefnd mótar leiðbeiningar um ákjósanlegar útfærslur byggðarmynsturs sem stuðli að gæðum byggðar og sjálfstæðum hverfiseiningum.


5.1.2 Svæðisskipulagsnefnd viðheldur upplýsingum um dreifingu þjónustu s.s. verslunarhúsnæðis sbr. aðgerð 6.1.2.

5.1.3 Svæðisskipulagsnefnd vinnur fjögurra ára þróunaráætlun í samvinnu við sveitarfélögin þar sem dregin verði fram áform um uppbyggingu þjónustu.

 

 

Aðildarsveitarfélög og byggðasamlög

5.1.4 Við útfærslu markmiðs 5.1 verða sveitarfélög að gæta að verndun byggingararfs og umhverfis. Metið verði hvort fyrirhuguð byggð kalli á húsakönnun og/eða umhverfisgreiningu. Sérstök áhersla verði lögð á vel heppnaðar útfærslur við þéttingu eldri byggðar.

5.1.5 Sveitarfélög útfæri í aðalskipulagsáætlunum markmið um lýðheilsu og geri grein fyrir nánari útfærslu hjóla- og göngustíga sem stuðli að daglegri hreyfingu. 

 

 

Aðkoma og aðgerðir annarra

5.1.6 Skipulagsstofnun aðstoði við mótun leiðbeininga um útfærslur og viðmið sjálfstæðra hverfiseininga.

5.1.7 Minjastofnun Íslands veiti aðgang að upplýsingum um húsnæði sem nýtur friðunar.