Fara í efni

1.1 Þróun þéttbýlis verður innan vaxtarmarka

Öll uppbygging þéttbýlis verður að eiga sér stað innan skilgreindra vaxtarmarka. Borgarbyggð er samheiti yfir allt þéttbýli (e. urban) innan vaxtarmarka. Nýrri íbúðarbyggð verði almennt komið fyrir innan núverandi þéttbýlis eða í þéttu og samfelldu framhaldi af byggð sem fyrir er, eftir því sem staðhættir leyfa. Með uppbyggingu innan núverandi þéttbýlis er stutt við betri nýtingu á núverandi grunnkerfum samgangna, veitna og almannaþjónustu og dregið úr þrýstingi um uppbyggingu á óbyggðum svæðum. 

Vaxtarmörk draga skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis og stuðla að sjálfbærri byggð innan marka og varðveislu náttúrusvæða og landbúnaðarlands utan marka. Innan vaxtarmarka verður þéttbýlið, íbúðir, verslun og þjónusta, iðnaður og annað sem tilheyrir borgarumhverfi auk útivistarsvæða. Utan markanna verði t.d. vatnsverndarsvæði og önnur verndarsvæði, stærri útivistarsvæði, landbúnaður, frístundabyggð, óbyggð svæði og annað sem tilheyrir dreifbýli. Almennt eru vaxtarmörkin 50 m breitt belti þar sem þéttbýli og dreifbýli mætast. Þetta á þó ekki við ef þau skil miðast við takmarkandi landnotkun s.s. vatnsvernd eða aðra friðun. 

Í slíkum tilvikum ráða skil takmarkandi landnotkunar. Með auknum þéttingarmöguleikum á samgöngumiðuðum þróunarsvæðum er gert ráð fyrir að vaxtarmörkin dugi vel fram yfir skipulagstímabilið. Því er mikilvægt að halda byggðinni ekki einungis innan þeirra heldur að sú byggð verði einnig í samræmi við markmið 1.2.

Byggðin verður látin þróast á þeim stöðum þar sem veðurfar og loftslagsbreytingar hafa minnst áhrif á búsetu. Að jafnaði skal velja byggðinni stað undir 100 m hæð yfir sjávarmáli þar sem úrkoma og lágt hitastig að vetri hafa takmarkandi áhrif á umferð um svæðið. Sveitarfélögin þurfa að taka sérstakt tillit til hækkunar sjávar við útfærslu byggðar við ströndina í sínu skipulagi t.d. með setningu lágmarkskóta.

Fylgst verður grannt með mannfjöldaþróun og spár endurnýjaðar reglulega þannig að sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar séu með sem áreiðanlegastar upplýsingar á hverjum tíma með það að markmiði að stuðla að sem mestu jafnvægi á byggingarmarkaði.

Við útfærslur vaxtarmarka og þróunar byggðar í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

 

 Vaxtamörk draga skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis og stuðla að sjálfbærri byggð og varðveislu náttúrusvæða og landbúnaðarlands

Þemakort

Kort 2 – Kjarnar og vaxtarmörk

Hagkvæmur vöxtur höfuðborgarsvæðisins

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 1.1 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

1.1.1 Svæðisskipulagsnefnd fylgist með og tryggir samræmi vaxtarmarka og aðalskipulagsáætlana sveitarfélaga.

1.1.2 SSH uppfærir mannfjöldaspá við gerð fjögurra ára þróunaráætlunar og miðlar þeim upplýsingum til svæðisskipulagsnefndar og sveitarfélaganna vegna nauðsynlegrar samræmingar.

 

Sveitarfélög og byggðasamlög

1.1.3 Sveitarfélögin leggja vaxtarmörkin til grundvallar sínum aðalskipulagsáætlunum.


1.1.4
Sveitarfélögin, byggðarsamlög og veitustofnanir taki mið af framtíðar þéttbýlismörkum við þróun stoðkerfa.

1.1.5 Sveitarfélögin taki mið af uppfærðum mannfjöldaspám við gerð fjögurra ára þróunaráætlunar og í samráði við Vegagerðina og veitustofnanir vegna uppbyggingar grunnkerfa samgangna og veita.  

 

 

Aðkoma og aðgerðir annarra

1.1.6 Ríkið taki mið af vaxtarmörkum í sinni stefnumótun og áætlanagerð