Fara í efni

Gríðarlegur umhverfisávinningur af nýju fyrirkomulagi sorpflokkunar

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa átt í miklu samstarfi er varðar flokkun og endurvinnslu heimilisúrgangs. Aukin flokkun heimilissorps hefur þegar skilað umtalsverðum árangri en urðun dróst saman um 89% á fyrsta ársfjórðungi.
Gríðarlegur umhverfisávinningur af nýju fyrirkomulagi sorpflokkunar

Aðgerðir til að draga úr urðun, m.a. með aukinni flokkun heimilissorps hafa þegar skilað umtalsverðum árangri. Samkvæmt upplýsingum frá SORPU dróst urðun þannig saman um 89% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Í minnisblaði sem Guðlaugur Þórs Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra lagði fyrir ríkisstjórn, kemur fram að minnkun á urðuðum úrgangi í Álfsnesi muni í heild sinni verða til þess að draga úr árlegri losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands um allt að 73.500 tonn CO2-ígilda á næstu 10-15 árum.

Eins og fram kemur í frétt ráðuneytisins jafnast samdrátturinn á við að taka tæplega 37.000 fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti af götum landsins. Það samsvarar nærri öllum orkuskiptum fólksbílaflotans sem orðið hafa hér á landi á undanförnum árum.

Veruleg breyting varð á flokkun og endurvinnslu heimilisúrgangs í kjölfar gildistöku svonefndra hringrásarlaga í byrjun 2023. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa átt í miklu samstarfi vegna þessa frá árinu 2021 gegnum sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins. Þá skrifuðu framkvæmdastjórar sveitarfélaganna undir yfirlýsingu um samstarf þann 11. mars 2022 þar sem fram kom að aðilar hygðust vinna í samræmi við tillögur sem fram koma í skýrslunni „Sorphirða á höfuðborgarsvæðinu: samræming úrgangsflokkunar” sem unnin var á vettvangi SSH í samstarfi við SORPU og faghóp tæknifólks sveitarfélaganna.

SORPA hlaut þá á dögunum Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum, m.a. vegna árangurs við innleiðingu á nýju flokkunarkerfi.

 

 

Sjá nánar frétt á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands

Sjá nánar sóknaráætlunarverkefni SSH

 

Myndir: vefsíða Hafnarfjarðarbæjar og SORPU.