Skólar og menntun í fremstu röð - Samvinna skólastiga frá leikskóla að háskóla
„Nám nemenda verði skipulagt sem heildstætt ferli frá leikskóla og upp til loka framhaldsskóla. Lögð varð áhersla á samfellu skólastarfs og aukið samstarf fagfólks á mismunandi skólastigum, með þarfir nemenda í huga.“
Á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) var hrint í framkvæmd áætlun um aðgerðir til að auka samfellu skólastarfs frá leikskóla til og með framhaldsskóla. Áhersla var á að hagsmunir nemenda ráði för um skipulag og inntak náms.
Ýtt var undir formlegt samstarf kennara og stjórnenda á aðliggjandi skólastigum um starfshætti og inntak náms með það fyrir augum að auka samfellu í námi nemenda. Þá var unnið að því að upplýsingar um námsstöðu nemenda fylgi nemendum á milli skólastiga og verði nýttar við skipulag náms á efra skólastigi.
Í samhengi við mögulegan flutning framhaldsskóla til sveitarfélaga og samræmingu á rekstri allra skólastiga fram til háskólanáms á einni hendi var skoðað hvort rétt sé að lengja skólaskyldu, s.s. með því að gera síðasta ár leikskólans að skólaskyldu.
Verkefnastjóri var Skúli Helgason.