Árangur, líðan og væntingar nemenda í innlendum og erlendum samanburði - Rannsóknir og greining -Mars 2014
Mat á gæðum íslenskra framhaldsskóla út frá sýn nemenda á árangur, líðan og væntingar þeirra, leiðir almennt í ljós jákvæðar niðurstöður fyrir framhaldsskólana. Þannig telur hátt í 100% nemenda skólanámið vera fremur eða mjög mikilvægt og um tveir þriðju hlutar nemenda telja kennsluhætti í náminu vera fjölbreytta. Nemendur telja almennt að þeir hafi greiðan aðgang að námsráðgjöf í skólanum. Þá metur mikill meirihluti nemenda líkamlega og andlega heilsu sína mjög góða eða frekar góða, eða hátt í 80%.
Í flestum tilvikum er lítinn mun hægt að greina á nemendum framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu í samanburði við nemendur utan þess. Þó eru nemendur á höfuðborgarsvæðinu hlutfallslega oftar mjög sammála því að gerðar séu miklar kröfur til þeirra í náminu á meðan nemendur utan höfuðborgarsvæðisins telja frekar að námið sé auðveldara en þeir áttu von á.
Nemendur á höfuðborgarsvæði eru að sama skapi líklegri til að segjast hafa fengið háar einkunnir á samræmdum prófum við lok grunnskóla og sá munur kemur fram í öllum fögum. Þá eru nemendur á höfuðborgarsvæði líklegri til að ætla í nám á háskólastigi á Íslandi eða erlendis en nemendur utan höfuðborgarsvæðis eru líklegri til að ætla að hefja vinnu strax að loknu framhaldsskólanámi.
Íslenskir nemendur skynja yfirleitt mikilvægi náms, telja auðvelt að fá ráðgjöf í skólanum og hafa skýrari væntingar um framhaldsnám en jafningjar þeirra á öðrum Norðurlöndum. Vert er þó að hafa áhyggjur af lestrarfærni nemenda, með tilliti til áhættunnar á brottfalli úr skóla. Hafi nemendur ekki öðlast nægilega mikla lesfærni við lok grunnskóla er erfitt fyrir þá að komast í gegnum mikið efni framhaldsskólans.
Verkefnastjóri var Skúli Helgason