Fara í efni

Sameiginleg könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara -Ágúst 2012

Við gerð kjarasamnings í maí 2011 sammæltust Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag grunnskólakennara (FG) í bókun 2 um að halda áfram vinnu á grundvelli sameiginlegrar framtíðarsýnar í skólamálum til ársins 2020. Framtíðarsýnin var unnin skv. sameiginlegum samningsmarkmiðum og markmiðum í kjarasamningi aðila frá 2008. Vinnan leiddi af sér könnun sem var lögð fyrir alla kennara á netfangalista Félags grunnskólakennara dagana 20. janúar til 6. febrúar 2012 og bárust svör frá 2.616 kennurum.

Sameiginleg könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara sýnir að mikill meirihluti kennara eða yfir 81% er með 100% starfshlutfall og kennurum líður almennt vel í starfi þrátt fyrir að álag hafi aukist. Ríflega 86% svarenda sögðu líðan sína í starfi almennt góða eða oftar góða en slæma og næstum átta af hverjum tíu svarendum sögðu vinnuandann í sínum skóla frekar eða mjög góðan.

Svör kennara benda til þess að álag í starfi kennara hafi aukist á seinustu fimm árum. Rúmlega 77% svarenda sögðu álagið hafa aukist frekar eða mjög mikið á þessu tímabili, en einungis 0,7% töldu álagið hafa minnkað frekar eða mjög mikið. Það sem helst virðist hafa áhrif á meira álag í starfi er hegðun nemenda og aukinn fjöldi agavandamála sem og áhrif almenns niðurskurðar í grunnskólunum.

Í könnuninni var spurt um álit kennara á ímynd kennarastarfsins hjá nokkrum hópum. Kennarar töldu ímynd starfsins einna besta hjá kennurum sjálfum, nemendum og foreldrum þeirra. Hins vegar væri ímynd starfsins ekki eins góð í samfélaginu og í sveitarstjórn en verst væri hún í fjölmiðlum.

Þá töldu 43% kennara þörf á fleiri undirbúningsdögum og rúmlega helmingur kennara taldi rétt að starfsdagar væru fleiri en fimm.