Skólar og menntun í fremstu röð – Samantekt
Verkefnin voru eftirtalin:
1. Gæði skólastarfs í alþjóðlegum samanburði
2. Samvinna skólastiga frá leikskóla til háskóla
3. Höfuðborgarsvæðið sem háskólaborg
4. Símenntun á vinnumarkaði
5. Menntun í menningargeiranum
Leiðarljós verkefnastjórnar var annars vegar að afla gagna um hvað einkenni menntakerfi sem teljast skara fram úr í heiminum og hins vegar að varpa upp mynd af íslenskum veruleika í skólastarfi á höfuðborgarsvæðinu á öllum skólastigum. Þá er litið til þeirra tækifæra sem búa í höfuðborgarsvæðinu sem heild og jafnframt hvaða tækifæri sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta nýtt sér með sameiginlegu átaki til að efla menntun og skólastarf á svæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu er að finna allar gerðir skóla, frá leikskóla til háskóla og fjölbreytilegs framhaldsnáms, og hér er að finna fjölskrúðuga flóru skóla og skólagerða.
Verkefnastjórnin lagði fram áætlun á grundvelli þessarar fræðilegu úttektar um verkefni sem að mati stjórnarinnar gætu fært skóla og menntakerfi á höfuðborgarsvæðinu í fremstu röð. Það er meðal annars gert með þeirri framtíðarsýn að gera menntamál að sameiginlegu forgangsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2020. Verkefnastjórnin fékk það verkefni frá framtíðarhóp SSH að leggja fram aðgerðaráætlun með fimm verkefnum sem þjónað gætu því markmiði að skipa skólum og menntakerfi á höfuðborgarsvæðinu í fremstu röð. Í skýrslunni fylgir stutt samantekt með meginatriðum úr hverju þessara fimm verkefna, auk samsvarandi aðgerðaáætlana. Í kjölfar þeirra eru lögð fram leiðarljós og aðferðafræði um mikilvægi heildrænnar nálgunar við þróun menntakerfa.
Verkefnastjóri var Skúli Helgason stjórnmálafræðingur.