Skólar og menntun í fremstu röð - Þjóðfélagslegur kostnaður af brotthvarfi úr námi á framhaldsskólastigi -Mars 2014
Núvirtur þjóðfélagslegur kostnaður af brotthvarfi eins nemanda úr námi á framhaldsskólastigi er 14 milljónir króna á verðlagi ársins 2012.
Áætlað er að 29,2% af nýnemum séu horfnir frá námi fjórum árum eftir innritun. Þá voru 4.305 einstaklingar á 16. aldursári sem stunduðu nám á framhaldsskólastigi árið 2012. Miðað við að 1.259 þeirra hverfi frá námi er þjóðfélagslegur kostnaður af brotthvarfi þess árgangs 17,7 milljarðar króna. Eftir að tekið hefur verið tillit til þess að annars vegar verður aldrei spornað við brotthvarfi allra, og hins vegar að hluti þeirra mun ljúka námi seinna, standa eftir 10,1 milljarður af þjóðfélagslegum kostnaði. Ef einungis er horft til þeirra sem eru á höfuðborgarsvæðinu er sú tala rúmlega 6,1 milljarðar.
Ef miðað er við að 19,5% af öllum nemendum sem stunda nám á framhaldsskólastigi hverfi frá námi á hverju ári mun brotthvarf árið 2012 vera 4.954 nemendur. Þjóðfélagslegur kostnaður af brotthvarfi nemenda 2012 er þá 52,4 milljarðar króna. Þar af er 32,1 milljarður á höfuðborgarsvæðinu. Sá hluti sem aðgerðir til þess að sporna gegn brotthvarfi gætu haft áhrif á er 44,9 milljarðar. Af því er hlutinn sem á við brotthvarf á höfuðborgarsvæðinu 27,6 milljarðar króna.
Verkefnastjóri var Skúli Helgason.