Tækifæri til útivistar við vötn, haf og gönguskíðaiðkun
Verkefnið var unnið af TÓ arkitektum á tímabilinu ágúst 2024 - apríl 2025 í samræmi við samkomulag við SSH.
Verkefnið fólst í að kortleggja hvaða svæði á höfuðborgarsvæðinu gætu hentað fyrir útivist og leiki sem tengjast vötnum, hafi og gönguskíðaiðkun, hvar slík notkun eða tengd þjónusta og/eða starfsemi sé til staðar og hvar megi styrkja enn frekar og á hvaða hátt.
Sambærilegt verkefni hefur verið unnið af hálfu Reykjavíkurborgar varðandi haftengda upplifun í Reykjavík. Skýrslan Haftengd upplifun og útivist í Reykjavík var gefin út í júní 2023 og hafði þeirri vinnu lokið áður en þetta verkefni hófst.
Sú skýrsla og vinna er skýr fyrirmynd og hvati fyrir því að sett var af stað vinna af hálfu SSH við að greina tækifæri til haf- og vatnstengdrar útivistar á öllu höfuðborgarsvæðinu. 4
Skýrsla Reykjavíkurborgar markaði í raun rammann fyrir verklag þessa verkefnisins og þá þætti sem skoðaðir voru fyrir hvern þann stað sem til álita kom. Hér er þó allt höfuðborgarsvæðið undir auk þess sem vilji var fyrir því að tækifæri til gönguskíðaiðkunar væru einnig tekin til skoðunar á sama tíma.
Kallaði það að einhverju leiti á útvíkkun á því hvaða staðir voru teknir upphaflega til skoðunar innan marka Reykjavíkur. Munar þar helst um stöðuvötnin í austurhluta borgarinnar sem fjallað er um í þessari skýrslu. Að öðru leiti er vísað í skýrslu Reykjavíkurborgar þegar við á til glöggvunar fyrir lesendur.
Sú vinna, samráð og samtal sem teymið átti við vinnslu þessa verkefnis fólst ekki síst í að safna saman upplýsingum frá hverju sveitarfélagi og draga saman í heildræna samantekt fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Einnig var teymið í samtali við aðra hagaðila þar sem tækifæri og tilefni stóð til.