Fara í efni

Saga SSH

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru stofnuð í Hlégarði, Mosfellshreppi 4. apríl 1976.

Stofnaðilar voru sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellshreppur, Bessastaðahreppur og Kjalarneshreppur.

Reykjavík gerðist hér í fyrsta skipti aðili að "landhlutasamtökum" en aðrir stofnaðilar voru fyrir í SASÍR (Samtök sveitarfélaga í Reykjanesskjördæmi) sem klofnaði í tvennt, SSH og SSS (Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum).

SSH fékk ekki formlega stöðu landshlutasamtaka og full framlög úr jöfnunarsjóði fyrr en 6-7 árum eftir stofnun.

Samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í 20 ár. Smellið á mynd til að sjá afmælisritið.

Hér fyrir neðan má lesa grein úr Sveitarstjórnarmálum, 5. hefti, 1. október 1976, bls.237, um stofnun SSH:

 

Megintilgangur með stofnun SSH var að skapa vettvang fyrir samstarf um skipulag á höfuðborgarsvæðinu og strax á stofnfundi var rætt um stofnun þróunarstofu, (sem varð að veruleika sem Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins).

Upphaflegar samþykktir SSH eru ekki færðar í stofnfundargerð og ekki aðgengilegar á skrifstofu SSH, því er ekki hægt í þessari samantekt að gera fulla grein fyrir tilgangnum eins og hann var settur á blað í stofnsamþykktunum. Stjórnarfundargerðir fystu áranna gefa hins vegar nokkuð glögga mynd um starfið og áherslur.

Hér má sjá 6 fyrstu fundargerðir SSH árið 1976:

Yfirferð yfir gögn um starfsemi SSH sýnir að starfsemi samtakanna í 40 ár skiptist með mjög skýrum hætti í þrjú tímabil sem hvert um sig einkennist að mismunandi áherslum og verkefnavali:

Tímabilið 1976 - 1988
Meginþungi starfsins snerist um skipulagsmál og tengd viðfangsefni, umferðar- og samgöngumál, holræsamál, rekstur Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins og gerð fyrsta svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið. Fulltrúakjörin stjórn og sérstök stjórn yfir Skipulagsstofu. Þessu skeiði lauk í kjölfar staðfestingar á nýju svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið 1985 – 2005 og í framhaldi þar af var ákveðið að loka Skipulagsstofu höfuðborgarstofu höfuðborgarsvæðisins.

Tímabilið 1988-2002
Þetta tímabil einkenndist af "hefðbundinni" starfsemi landshlutasamtaka með 11-12 manna fulltrúakjörinni stjórn, hagsmunagæslu (umfjöllun og umsagnir um lagafrumvörp), breið flóra samstarfsverkefna, málþing, ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins, höfuðborgargirðing, stofnun Almenningsvagna bs., eyðing vargsfulgs, ferðaþjónusta fatlaðra, vatnsvernd osfr.

Tímabilið 2002-
Gjörbreytt áhersla, framkvæmastjórar í stjórn í stað fulltrúakjörinnar stjórnar, aukin og vaxandi áhersla á innri málefni sveitarfélaganna, sameiginleg mótun rekstrarverkefna, samræming, minnkandi áhersla á hagsmunagæslu út á við.
Megináherls á eflingu samstarfs sveitarfélaganna, Nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, endurskoðuð vatnsvernd mikil umfjöllun um rekstur byggðasamlaganna Sorpu bs. og Strætó bs – rekstur skíðasvæðasvæðanna , sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk o.fl.

Stjórnsýsluleg staða SSH

Samtök sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu eru ein af átta landshlutasamtökum sem starfa svæðisbundið og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaga hvert á sínu svæði.

Landshlutasamtök eru ekki stjórnvald í skilningi laga og sveitarfélagi er ekki skylt að vera aðili að landshlutasamtökum.

Í VIII kafla sveitarstjórnarlaga "Samvinna sveitarfélaga" er að finna ákvæði um landshlutasamtökin í 81. grein og 86. grein.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir árlega ákveðið framlag til reksturs landshlutasamtakanna. Sveitarfélögin greiða þar að auki tiltekið árgjald, mismunandi milli landshlutasamtaka.

SSH og byggðasamlögin

Heimildir til stofnunar byggðasamlaga vegna samreksturs sveitarfélaga á tilteknum verkefnum komu inn í sveitarstjórnarlög 1986.

Fyrsta byggðasamlagið sem stofnað var á grundvelli þeirra laga var Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins bs., stofnsamningur undirritaður 15. febrúar 1988.

Almenningsvagnar bs. var stofnað 2. febrúar 1990 af 6 aðildarsveitarfélögum SSH til að undirbúa og hefja sameiginlegan rekstur almenningssamgangna í þeim sveitarfélögum, með samstarfi við SVR um sameiginlegt leiðar- og fargjaldakerfi. AV og SVR sameinuðust í Strætó bs. 2002.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs, skammstafað SHS, var stofnað 31. maí 2000 með sameiningu allra slökkviliða á höfuðborgarsvæðinu, samhliða breytingu á lögum um almannavarnir. Ákvæði laga um almennavarnir leiddu einkum til þess að framkvæmdastjórar sveitarfélaganna settust í stjórn SHS.

Fram til 2009 er ekki að finna í samþykktum SSH eða byggðasamlaganna nein ákvæði um skilgreint hlutverk SSH gagnvart stöðu þeirra eða rekstri.

Engu að síður liggur ljóst að bæði eigendur byggðasamlaganna og byggðasamlögin hafa frá árinu 2002 notað SSH sem vettvang fyrir samtal og eftir atvikum ákvarðanatöku um málefni byggðasamlaganna. Fundargerðir stjórnar SSH frá þeim tíma bera glögglega með sér að þar hafa verið tekin upp mál er varða byggðasamlögin sem kallað hafa á samræmda afstöðu og ákvarðanatöku.

SSH hefur þannig með óformlegum hætti virkað sem vettvangur fyrir nauðsynlegt samtal og samráð eigenda byggðasamlaganna og með sama hætti hafa byggðasamlögin nýtt sér SSH þegar þau hafa þurft að eiga samtal við eigendur þeirra og kallað eftir sameignlegri ákvörðun um tiltekin meginmál.

Skortur á formfestu þessara samskipta hefur hins vegar af og til leitt til núnings í eigendahópi og sömuleiðis óánægju innan stjórna byggðasamlaganna sem bera ábyrgð beint gagnvart sveitarfélögunum.

Á aðalfundi SSH 2009 var samþykkt formlega hlutverk SSH gagnvart byggðasamlögunum með breytingu á samþykktum SSH.

Breytinguna er að finna í 6. grein samþykktana, en þar segir:

"SSH er sameignlegur vettvangur sveitarfélaganna til að fjalla um rekstur þeirra byggðarsamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni og sama gildir um önnur hliðstæð verkefni á vegum aðilarsveitarfélaganna s.s. svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins."

Framangreint ákvæði breytir engu um stöðu stjórna byggðasamlaganna gagnvert umboði þeirra og ábyrgð, en var sett inn til að taka af öll tvímæli um að full vitund og sátt væri um það vinnulag sem viðhaft hefur verið lengi, þ.e. að eigendasamtal um málefni byggðasamlaganna ætti sér stað við stjórnarborð SSH og að byggðasamlögin gætu nálgast sameiginlegt samtal við eigendur sína á vettvangi SSH.

Formenn SSH frá stofnun

1976-1978 Stefán Jónsson, Hafnarfirði
1978-1979 Garðar Sigurgerisson, Garðabæ
1979-1982 Markús Örn Antonsson, Reykjavík
1982-1983 Richard Björgvinsson, Kópavogi
1983-1986 Júlíus Sólnes, Seltjarnarnesi
1986-1988 Magnús Sigsteinsson, Mosfellsbæ
1988-1990 Lilja Hallgrímsdóttir, Garðabæ
1990-1994 Sveinn Andri Sveinsson, Reykjavík
1994-1995 Sigurður Geirdal, Kópavogi
1995-1996 Árni Hjörleifsson, Hafnarfirði
1996-1997 Jónas Sigurðsson, Mosfellsbæ
1997-1998 Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Reykjavík
1998-2002 Erna Nielsen, Seltjarnarnesi
2002-2002 Magnús Gunnarsson, Hafnarfirði
2002-2004 Sigurður Geirdal, Kópavogi
2004-2006 Lúðvík Geirsson, Hafnarfirði
2006-2008 Gunnar Einarsson, Garðabæ
2008-2010 Haraldur Sverrisson, Mosfellsbæ
2010-2012 Ásgerður Halldórsdóttir, Seltjarnarnesi
2012-2012 Snorri Finnlaugsson, Álftanes
2013-2014 Gunnar Einarsson, Garðabæ
2014-2016 Dagur B. Eggertsson, Reykjavík
2016-2018 Ármann Kr. Ólafsson, Kópavogur
2018-2020 Rósa Guðbjartsdóttir, Hafnarfjörður
2020-2022 Gunnar Einarsson, Garðabæ
2022           Almar Guðmundsson, Garðabæ
2022-          Regína Ásvaldsdóttir, Mosfellsbæ

Framkvæmdastjórar SSH

1980-1988   Gestur Ólafsson
1988-2001   Jónas Egilsson
2002-2008   Guðmundur Malmquist
2008-2019   Páll Guðjónsson
2019-           Páll Björgvin Guðmundsson

Aðalfundir SSH frá 1978 til 1998.Greinar úr Sveitarstjórnarmálum. /timarit.is: