Fara í efni

Yfirlýsing SSH vegna málefna hælisleitenda

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu harma stöðu þeirra hælisleitenda sem nú eru án grunnþjónustu en mótmæla um leið afstöðu ríkisins varðandi ábyrgð í málinu og hafa óskað eftir tafarlausu samtali við félags- og vinnumálaráðherra og dómsmálaráðherra.

Eins og komið hefur fram í fréttum að undanförnu er nú fjöldi hælisleitenda á höfuðborgarsvæðinu sem ekki nýtur lengur grunnþjónustu samkvæmt breyttum útlendingalögum þar sem 30 dagar eru liðnir frá endanlegri synjun um alþjóðlega vernd. Af viðbrögðum einstakra fulltrúa ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum má ráða að ábyrgðin sé nú á höndum sveitarfélaganna.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu harma stöðu þessara einstaklinga en mótmæla um leið afstöðu ríkisins enda hefur ekkert samtal farið fram milli ríkis og sveitarfélaga um hvað tekur við hjá þeim hælisleitendum sem misst hafa framfæri sitt hjá ríkinu og eru án kennitölu og réttinda í landinu. Sveitarfélögin eru því sett í afar erfiða aðstöðu gagnvart þessum hópi. Í umsögn sinni vegna breytinga á útlendingalögum varaði Samband íslenskra sveitarfélaga við því að þessi staða gæti komið upp.

Að mati Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er þessi málaflokkur á ábyrgð ríkisins og nauðsynlegt að þau ráðuneyti sem málaflokkurinn fellur undir geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja umræddum einstaklingum þak yfir höfuðið og framfærslu á meðan þeir eru hér á landi.

Samtökin hafa óskað eftir tafarlausu samtali við félags- og vinnumálaráðherra og dómsmálaráðherra vegna þessa máls.

Frekari upplýsingar veitir Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH í síma 821-8179.