Fara í efni

Vinnustofa um álagsdreifingu umferðar á höfuðborgarsvæðinu

Framundan eru umfangsmiklar framkvæmdir vegna Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og á meðan og til framtíðar er því sérstaklega mikilvægt að leita leiða til að bæta flæði samgöngumáta á svæðinu.

Þann 30. september síðastliðinn var haldin vinnustofa um mögulegar aðgerðir til að dreifa betur álagi umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Vinnustofan er liður í verkefninu Álagsdreifing umferðar á höfuðborgarsvæðinu, sem verkfræðistofan EFLA vinnur fyrir SSH en verkefnið er eitt af sóknaráætlunarverkefnum ársins 2025.


Mynd frá Eflu

Markmið verkefnisins er að móta tillögur að aðgerðum sem bætt geta flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu.

Framundan eru umfangsmiklar framkvæmdir vegna Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og á meðan og til framtíðar er því sérstaklega mikilvægt að leita leiða til að bæta flæði samgöngumáta á svæðinu. Ávinningur samfélagsins vegna bætts umferðarflæðis er að íbúar eyða minni tíma í umferðinni á hverjum tíma. Bætt umferðarflæði hefur bæði áhrif á ferðatíma þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum og einkabíl.

Um 30 fulltrúar frá stofnunum, fyrirtækjum, framhaldsskólum og sveitarfélögum tóku þátt í vinnustofunni. Í upphafi vinnustofunnar fór Daði Baldur Ottósson samgönguverkfræðingur hjá EFLU yfir helstu áhrifaþætti, svo sem ferðavenjur, álagstíma umferðar, mannfjöldaspár, skipulag byggðar, samgöngustyrki og samgöngustefnur.

Dæmi um aðgerðir sem ræddar voru á vinnustofunni eru:
• Fleytitíð – hliðrun á opnunartíma til að minnka álag í morgunumferð.
• Hvetjandi aðgerðir fyrir vistvæna ferðamáta.
• Betra aðgengi að hjólastæðum.
• Deilibílar á vinnustöðum.
• Samgöngusamningar og styrkir.
• Samgöngustefnur fyrirtækja og stofnana.
• Gjaldtaka á bílastæðum.
• Möguleikar til að sameinast í bíla á leið til vinnu/skóla.

Mikilvægt er að fram fari samtal um samstarf stofnana og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu til að hægt sé að ráðast í aðgerðir.

Niðurstöður verkefnisins eru væntanlegar í lok árs og verða þær settar fram í skýrslu og kynntar helstu hagaðilum.