Fara í efni

Verkefnastjóri áfangastaðarins höfuðborgarsvæðið

Verkefnastjóri áfangastaðarins höfuðborgarsvæðið

Tekin hefur verið ákvörðun um að ráða Björn Hildi Reynisson í starf verkefnastjóra hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) frá 1. febrúar 2022.

Um nýja tímabundna stöðu er að ræða sem er ætlað að sinna gerð áfangastaðaáætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið og stefnumörkun fyrir áfangastaðinn í samræmi við samkomulag ríkis, sveitarfélaga, SSH, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins.Gerð áfangastaðaáætlunar hefur það hlutverk að styðja við þróun höfuðborgarsvæðisins sem áfangastaðar á heimsmælikvarða, í átt að sjálfbærri framtíðarsýn og aukinni samkeppnishæfni með áherslu á þróun, kynningar- og markaðsstarf ásamt samlegð og samtali hagaðila í ferðaþjónustu og tengdra aðila.

Björn lauk MS námi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og BA í International Management frá Anglia Ruskin University í Cambridge í Bretlandi árið 2007.

Hann hefur starfað í yfir 13 ár við stefnumörkun í ferðaþjónustu og landkynningu. Á árunum 2008-2015 sinnti hann ráðgjöf og fræðslu hjá Íslandsstofu og í framhaldi starfaði hann sem markaðs- og sölustjóri Saga Travel. Á árunum 2017-2021 var hann verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands þar sem hann bar ábyrgð á gerð áfangastaðaáætlunar og markaðsáætlunar fyrir áfangastaðinn Norðurland. Hann stýrði einnig samningum og þróun vörumerkisins ?demantshringurinn?. Nú síðast hefur hann starfað sem sölu- og markaðsstjóri Eldingar hvalaskoðunar.

Starf verkefnastjórans var auglýst 22. desember 2021 og sóttu 54 um starfið. Um er að ræða tímabundna ráðningu í eitt ár.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu bjóða Björn velkominn til starfa.