Fara í efni

Uppsetning og rekstur mælistöðva grunnvatns í Bláfjöllum

SSH og verkfræðistofan COWI hafa gert samninga um uppsetningu og rekstur mælistöðva vegna grunnvatnsmælinga í þremur borholum á Bláfjallasvæðinu.

Boranir rannsóknarborhola á Bláfjallasvæðinu hófust sumarið 2024. Boranirnar komu til sem mótvægisaðgerð vegna framkvæmda á skíðasvæðinu í Bláfjöllum og tilgangur þeirra var að vakta grunnvatn höfuborgarsvæðisins enn betur, sem á að hluta upptök sín á þessu svæði. Auk rannsóknarborholanna eru einnig á svæðinu borholur á vegum skíðasvæðisins í Bláfjöllum.

Eitt af markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er að tryggja aðgengi íbúa að hreinu og ómeðhöndluðu drykkjarvatni. Mælingar á grunnvatni á Bláfjallasvæðinu eru því mikilvægur þáttur í vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins. Niðurstöður mælinganna munu nýtast við áframhaldandi rannsóknir og vöktun, sem er liður í því að öryggi vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins sé tryggt.

SSH hefur gert samninga við verkfræðistofuna COWI um uppsetningu og rekstur mælistöðva í þremur borholum á Bláfjallasvæðinu. COWI mun einnig sjá um úrvinnslu gagna.

Samningar um rekstur mælistöðvanna eru til þriggja ára.


Frá undirritun samninganna: Sverrir Óskar Elefsen COWI, Ólöf Kristjánsdóttir COWI, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH og Ásdís Ólafsdóttir svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins