Fara í efni

Rannsókn á starfsálagi í grunnskólum

Hvað er það sem veldur starfsfólki grunnskóla mestu álagi í starfi? Hefur álag verið að aukast og ef svo er – af hvaða völdum? Er hægt að grípa til aðgerða til að létta álagi af kennurum og stjórnendum?

Þetta eru dæmi um spurningar sem leitast verður við að svara í rannsókn sem nú er að hefjast á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefur hlotið vinnuheitið Álag í skólastarfi – ástæður og úrbætur.

Verkefnið er eitt áhersluverkefna sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2025. Samningur var undirritaður 14. maí 2025 og eru rannsakendur þau dr. Ingvar Sigurgeirsson og dr. Lilja M. Jónsdóttir, kennslufræðingar og fyrrverandi háskólakennarar.

Þau munu heimsækja og ræða við rýnihópa kennara, stjórnenda og annars starfsfólks í 25 grunnskólum. Í framhaldi af því er stefnt að því að leggja könnun fyrir allt starfsfólk grunnskólanna sem kemur að kennslu, en á höfuðborgarsvæðinu eru 78 skólar á grunnskólastigi. Stefnt er að því að verkefninu ljúki snemma á næsta ári.

Afar brýnt er talið að varpa ljósi á þær breytingar sem hafa orðið á starfsumhverfi í grunnskólunum og skilningur á þeim er mikilvæg forsenda fyrir því að hægt sé að vinna markvisst að úrbótum. Stefnt er að því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geti sameinast um aðgerðir í þessu skyni.


Við undirritun samnings 14. maí 2025: Hanna Borg Jónsdóttir SSH, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, dr. Lilja M. Jónsdóttir og dr. Ingvar Sigurgeirsson.