Fara í efni

Mannlíf, byggð og bæjarrými

Vinnslutillaga til kynningar á leiðbeiningum um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur
Mannlíf, byggð og bæjarrými

Síðustu misseri hafa Skipulagsstofnun og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu unnið að þróun leiðbeininga um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. Vinnslutillaga að leiðbeiningunum, Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur, hefur nú verið birt til kynningar. Leiðbeiningarnar eru unnar í samstarfi við Teiknistofuna STIKU og að verkefninu komu einnig EFLA og Landmótun landslagsarkitektar.

Sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur

Verkefnið er hluti af útfærslu stefnumörkunar um byggð og bæjarrými og samgöngur sem sett er fram í landsskipulagsstefnu og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar öllum sem fást við og láta sig varða skipulag, samgöngur og gæði byggðar og munu nýtast við skipulag, hönnun og uppbyggingu byggðar og bæjarrýma, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem og öðrum þéttbýlissvæðum landsins. Von er til þess að leiðbeiningarnar verði gagnlegur leiðarvísir að sjálfbæru skipulagi með samþættingu byggðar og samgangna, gæði byggðar og fjölbreytt og lifandi bæjarrými að leiðarljósi.

Kynningartími til loka október

Leiðbeiningarnar eru birtar til kynningar til loka október þar sem hagaðilum og almenningi gefst kostur á að kynnar sér efni þeirra og senda inn athugasemdir og ábendingar. Hægt er að koma ábendingum um efni leiðbeininganna til Jóns Kjartans Ágústssonar, netfang:  jon [hjá] ssh.is, svæðisskipulagsstjóra hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Magneu Guðmundsdóttur, arkitekts á teiknistofunni Stiku, netfang: magnea [hjá] tstika.is. Að kynningartíma loknum verður tekin afstaða til athugasemda og lokaútgáfa af leiðbeiningan gefin út og birt hér á vef stofnunarinnar.