Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna
Nú er til meðferðar Alþingis endurflutt frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), hefur tvívegis sent umsögn um frumvarpið. Áréttað er að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa mikinn metnað til að sinna þjónustu við fatlað fólk með vönduðum hætti, en rúmlega 90% af þjónustunni fellur til á höfuðborgarsvæðinu. Lýst er yfir stuðningi við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Bent er á mikilvægi þess að ríkið vinni sérstakt kostnaðarmat um áhrif lagasetningarinnar, sbr. 129.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, en slíkt mat hefur ekki verið unnið. Samtökin lýsa sig reiðubúin til samstarfs við slíkt mat.
Samkvæmt greiningu sem SSH lét vinna vegna frumvarpsins á vormánuðum 2025 er áætlaður viðbótarkostnaður allt að 14 milljarðar á ári og er hér því um mikilvægt hagsmunamál fyrir fatlað fólk að ræða og þar með samfélagið allt. Í ljósi þess sem að framan segir er skorað á Alþingi að fram fari samtal á milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig verði staðið að fjármögnun málaflokksins hið fyrsta og eðlilegast er að það sé gert áður en til lögfestingar samningsins kemur.
SSH lýsa sig þá að sjálfsögðu reiðubúin til að gera enn á ný frekari grein fyrir máli sínu.