Fara í efni

Höfuðborgarsvæðið markaðsett sem einn áfangastaður

Þann 3. apríl 2023 var Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins stofnuð eftir tveggja ára undirbúning. Markaðsstofan er áfangastaðastofa fyrir höfuðborgarsvæðið allt og eru stofnaðilar Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins. Markaðsstofan er vettvangur til að markaðssetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í heild og ná þannig betri árangri.
Höfuðborgarsvæðið markaðsett sem einn áfangastaður
  • Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að undirbúningi stofnunar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins með aðkomu sveitarfélaga á svæðinu, atvinnulífisins og stjórnvalda.
  • Stofnaðilar eru Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins.
  • Með stofnum Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins er komið á sameiginlegum vettvangi til að markaðssetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið.
  • Samhliða stofnfundi var áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins birt. 

    

 

Við undirritun samnings um stofnun á Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins: Sigríður Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Rósa Guðbjartsdóottir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarness, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og formaður stjórnar SSH, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórir Garðarsson formaður ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins.

 

Regína Ásvaldsdóttir formaður stjórnar SSH:
„Undanfarin tvö ár hafa SSH unnið ötullega með ferðaþjónustunni að því að greina með hvaða hætti uppbyggingu og markaðsetningu ferðaþjónustu verði best háttað á höfuðborgarsvæðinu. Með stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins er stigið mikilvægt skref í að tryggja samræmdar aðgerðir sem tengjast ferðaþjónustu á sviði markaðsmála og þróun áfangastaðarins. Með tilkomu stofunnar verður til öflugt samstarf sem mun efla samkeppnishæfni áfangastaðarins, ferðaþjónustunni og höfuðborgarsvæðinu til heilla“.

Þórir Garðarsson formaður Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins:
„Ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir því að stofnuð yrði markaðstofa á höfuðborgarsvæðinu. Með þessu er kominn vettvangur fyrir fyrirtæki til að hafa með beinum hætti áhrif á hvernig markaðssetning og þróun ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu muni verða á næstu árum. Er óhætt að segja að þetta er eitt stærsta framfaraskrefið í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu“.

Þórdís Lóa er formaður stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins:
,,Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa unnið að ferðamálum bæði sitt í hverju lagi og saman en nú er komið að því að bjóða öllum hagaðilum að taka þátt í verkefninu og um það snýst Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins. Nú förum við í það að þróa, móta og efla samstarf og samlegð um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, atvinnulífs og stjórnvalda, þannig að allar raddir og áherslur komi fram, verkefninu til heilla”.

Björn H. Reynisson, verkefnastjóri áfangastaðarins höfuðborgarsvæðisins:
,,Í áfangstaðaáætlun er sett fram stefna og áherslur fyrir áfangastaðinn til næstu þriggja ára. Er þar meðal annars tekið fram hvaða aðgerðir tengdar ferðaþjónustu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ætla að framkvæma og þannig geta allir unnið í takt. Þetta er í fyrsta sinn sem áfangastaðaáætlun er gerð fyrir höfuðborgarsvæðið og því ber að fagna“.


Stjórn SSH, stjórn Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, formaður ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins og ráðherra: Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarness, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Guðbjörg Oddný Jónasdóttir Hafnarfirði, Jakob Einar Jakobsson framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður stjórnar Markaðsstofunnar, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og formaður stjórnar SSH, Lilja Alfreðsdóttir menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sævar Birgisson Mosfellsbæ, Eva Jósteinsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Center Hotels, Stella Stefánsdóttir Garðabæ, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Þórir Garðarsson formaður ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins og Elísabet Sveinsdóttir Kópavogi.

Nánari upplýsingar veita Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH sími: 821 8179
eða Björn H. Reynisson, verkefnastjóri sími: 863-0001 // bjorn@ssh.is

Upplýsingar um verkefnið má finna hér