Fara í efni

Endurnýjun og uppbygging mannvirkja Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins

Endurnýjun og uppbygging mannvirkja Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins

Mynd tekin í skíðaskálanum í Bláfjöllum við undirskrift samkomulagsins: Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar /ljósm. PG

Sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær og Garðabær, sem sameiginlega reka skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins undirrituðu í dag samkomulag sem felur í sér að á næstu árum verður ráðist í endurnýjun og uppsetningu þriggja stólalyfta í Bláfjöllum og endurnýjun stólalyftu í Skálafelli. Ennfremur verður settur upp búnaður til snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Samhliða þessum verkefnum verður unnið að áframhaldandi uppbyggingu á skíðagöngusvæði og bættum aðstæðum fyrir skíðagöngufólk.

Þessi verkefni eru fyrri áfangi af tveimur við heildaruppbyggingu skíðasvæðanna sem byggja á tillögu að framtíðarsýn um uppbyggingu og rekstur þeirra til ársins 2030.

Bláfjöll

Ný stólalyfta Drottning í breyttri legu ásamt nauðsynlegum aðgerðum og aðlögun á brautum og endastöðvum. Áætluð tímasetning framkvæmda 2019 til 2020.

Ný stólalyfta Gosi í Suðurgili í breyttri legu ásamt nauðsynlegum aðgerðum og aðlögun á brautum og endastöðvum. Áætluð tímasetning framkvæmda 2022-2023.

Notuð stólalyfta í Eldborgargili ásamt nauðsynlegum breytingum á endastöðvum. Áætluð tímasetning framkvæmda 2023-2024.

Ný toglyfta úr Kerlingadal. Áætluð tímasetning framkvæmda 2023.

Skálafell

Notuð stólalyfta ásamt nauðsynlegum breytingum á aðstöðu við endastöðvar. Áætluð tímasetning 2020-2021.

Snjóframleiðsla

1. áfangi snjóframleiðslu - Bláfjöll; heimatorfan, Kóngsgil og Öxlin.
2. áfangi snjóframleiðslu - Skálafell eða suðursvæði í Bláfjöllum.

Ofangreind verkefnaröðun og tímasetningar geta breyst ef upp koma tæknilegar eða skipulagslegar aðstæður sem kalla á endurskoðun tímasetninga.

Skíðagönguleiðir

Unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu á skíðagöngusvæði með uppsetningu snjógirðinga, stika og merkinga, auk þess sem annar áfangi snjóframleiðslu nýtist til að treysta snjóalag á gönguleiðum og lengja tímabilið fyrir gönguskíðafólk.

Kostnaður

Áætlaður kostnaður vegna þessara framkvæmda á árunum 2019-2024 er um 3,6 milljarðar króna. Kostnaðarskipting sveitarfélaganna fer eftir íbúafjölda og gert er ráð fyrir að hlutur borgarinnar sé um 60% kostnaðarins.

Gert er ráð fyrir að á árinu 2018 verði varið allt að 30 milljónum króna vegna nauðsynlegs tæknilegs og fjárhagslegs undirbúnings framangreindra verkefna. Skoðað verði sérstaklega í þeirri vinnu hvort unnt verður með hagkvæmum hætti að bjóða út kaup á lyftubúnaði í einu lagi.

Samhliða endurnýjun og uppbyggingu mannvirkja skíðasvæðanna verða kannaðir möguleikar á að koma á tengingu almenningssamgangna við skíðasvæðin til að auðvelda aðgengi að þeim og draga úr álagi vegna umferðar einkabíla á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.