Fara í efni

Hvítá til Hvítá

Svæðið Hvítá-Hvítá liggur milli Hvítár á Vesturlandi og Hvítár á Suðurlandi og nær yfir 20 sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum og Vesturlandi. Þar búa í dag um 315 þúsund manns, rúmlega 80 % þjóðarinnar, en búist er við að íbúar verði um 460 þúsund árið 2050 haldi vöxturinn áfram óbreyttur. Til samanburðar má nefna að árið 2000 bjuggu um 210 þúsund manns á sama svæði.

Verkefnið Hvítá -Hvítá, unnið af Nordic Office of Architecture, var eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2024. Tilgangur verkefnisins er að kanna áhrif af áframhaldandi óbreyttum vexti þéttbýliskjarna, innan Hvítár – Hvítár svæðisins, á þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2050. Skýrsla um verkefnið liggur nú fyrir.

Niðurstöður verkefnisins sýna að óbreyttur vöxtur muni hafa umtalsverð áhrif á höfuðborgarsvæðið. Þéttbýliskjarnar nálægt hver öðrum geti notið góðs af vexti hvers annars, en samhliða auknum vexti þéttbýliskjarna er líklegt að þeir verði sjálfbærari og standi betur undir almennri verslun og þjónustu við íbúa sína. Áfram má þó gera ráð fyrir að íbúar á Hvítá- Hvítá svæðinu sæki sértækari þjónustu, menntun og vinnu til höfuðborgarsvæðisins en á sama tíma er höfuðborgarsvæðið háð öðrum þáttum utan höfuðborgarsvæðisins t.d. orkuframleiðslu og millilandaflugi. Þá er mikilvægt að öflugar almenningssamgöngur séu til staðar, ástand vega sé gott og að þvert á sveitarfélagsmörk sé unnið að uppbyggingu mikilvægra innviða. Sérstaklega er bent á að líkur eru á aukinni bílaumferð til og frá höfuðborgarsvæðinu, samhliða aukinni mengun og lakara öryggi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Mikilvægt er því að horfa ekki eingöngu til höfuðborgarsvæðisins þegar um er að ræða fyrirkomulag almenningssamgangna enda eru bættar almenningssamgöngur líklegar til að draga úr annars verulega neikvæðum áhrifum af óbreyttum vexti á ferðamáta og umferðarmagn.

Skýrslan dregur einnig fram mikilvægi þess að sveitarfélög á Hvítá–Hvítá svæðinu vinni saman að mótun heildstæðrar stefnu um uppbyggingu, samgöngur og innviði. Slík samvinna getur stuðlað að sjálfbærri þróun, aukinni hagkvæmni og auknum lífsgæðum íbúa alls svæðisins.