SSH er vettvangur samráðs og samstarfs aðildarsveitarfélaganna og starfar á grundvelli 97. greinar sveitarstjórnarlaga og ákvæða samþykkta SSH.   

Af því leiðir að ýmis mál sem tengjast þessu hlutverki samtakanna koma til umfjöllunar og úrlausnar.  

Stjórnarfundir eru haldnir mánaðarlega, þar sem sameiginleg málefni og einstök úrlausnarefni sem kalla á samræmda nálgun og sýn eru rædd og afgreidd.

Auk þeirra viðfangsefna sem afgreidd eru á stjórnarfundum eru á vettvangi SSH eða í tengslum við samtökin haldnir samráðsfundir fjármálastjóra sveitarfélaganna, fræðslustjóra og forstöðumanna velferðarsviða, bæði til almenns samráðs og vegna tiltekinna málefna sem kalla á sameiginlega úrvinnslu.

Stjórn SSH fundar oft og einatt með utanaðkomandi aðilum um málefni sem tengjast sameiginlegum hagsmunum svæðisins, s.s. Vegagerð ríkisins vegna vega- og samgöngumála, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna löggæslu o.fl.

Af einstökum verkefnum sem unnið er á vettvangi SSH má nefna:

 

Sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið

Í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar, ÍSLAND 2020 hafa landshlutasamtök sveitarfélaganna unnið að undirbúningi sérstakra sóknaráætlana landshluta. Tilgangur þeirra er að efla atvinnulíf og mannlíf og auka lífsgæði.

Sérstakar sóknaráætlanir eru gerðar fyrir hvern landshluta, og sinna landshlutasamtök sveitarfélaga því verkefni.

Frekari upplýsingar um sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið:

pdf button Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2013, verkefnatillaga

 

Efling almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu

Hinn 7. maí 2012 var undirritaður samningur milli SSH f.h. aðildarsveitarfélaganna annars vegar, og Vegagerðarinnar og Innanríkisráðuneytisins hins vegar vegna samstarfs um 10 ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu. Samningurinn felur m.a. í að lagðar verði til um 900 milljónir króna árlega næstu 10 árin á móti óbreyttum rekstrarframlögum sveitarfálaganna til reksturs Strætó bs. Þessir fjármunir verða nýttir til að efla þjónustu Strætó bs., bæði á álagstímum og til að þétta aksturstíðni á öðrum tímum dagsins. Markmið verkefnisins er að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum á höfuðborgarsvæðinu, minnka útblástur kolefnislofttegunda, draga úr þörf fyrir fjárfrekar framkvæmdir í umferðamannvirkjum, lækka kostnað samfélagsins vegna umferðar og umferðarslysa og auka umferðaröryggi.

Samningurinn í heild sinni:

pdf button Samningur um eflingu almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu

 

Nýtt samkomulag um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins

Hinn 24. ágúst 2012 skrifuðu aðildarsveitarfélögin undir nýtt samkomulag um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, og þar með var lagður grunnur að heildarendurskoðun núgildandi svæðisskipulags fyrir árin 2001 -2024. Með samkomulaginu var sett fram ákveðin framtíðarsýn fyrir höfuðborgarsvæðið og skilgreindar helstu forsendur og viðmið sem lögð verða til grundvallar við endurskoðunina. Nýtt svæðisskipulag mun væntanlega gilda fyrir árin 2015 -2040.

Samhliða ákvörðun sveitarfélaganna um að hefja vinnu við heildarendurskoðun svæðisskipulagsins var skrifstofu SSH falið að halda utan um rekstur verkefnisins, og í kjölfar var ráðinn sérstakur svæðisskipulagsstjóri til næstu 2ja ár til að stýra þeirri vinnu sem framundan er.

Samkomulagið má sjá hér

 

Heildarendurskoðun vatnsverndar fyrir höfuðborgarsvæðið

Í maímánuði var gerður sérstakur samningur milli SSH og verkfræðistofunnar Vatnaskila um vinnu við heildarendurskoðun vatnsverndar fyrir höfuðborgarsvæðið, sem kemur í staðinn fyrir núgildandi vatnsvernd frá árinu 1997. Verkefnið byggir á tillögu sem sérstakur stýrihópur lagði fyrir aðildarsveitarfélögin í lok árs 2011. Þessi stýrihópur hefur umsjón með verkefninu fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna, en verkefnið er vistað hjá SSH og svæðisskipulagsstjóri SSH starfar með stýrihópnum.

Gert er ráð fyrir að þessu verkefni ljúki á fyrri hluta ársins 2014.

 

Mótun eigendastefnu fyrir byggðasamlögin SORPU og Strætó

Á árinu 2012 var unnið að mótun nýrrar eigendastefnu fyrir byggðasamlögin SORPU bs. og Strætó bs. Markmið þessarar vinnu er að setja fram skýra framtíðarsýn eigenda vegna reksturs byggðasamlaganna og skilgreina sameiginlegan eigendavettvang. Sömuleiðis verður hlutverk stjórna og framkvæmdastjórnar byggðasamlaganna afmarkað og skýrt.

Hér má sjá fullmótaða eigendastefnu

pdf button SORPA bs.

pdf button Strætó bs.

 

Sameiginlegt útboð á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk

Aðildarsveitarfélög SSH vinna nú að mótun sameiginlegs fyrirkomulags og útboðs á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.

 

Fjárheld girðing um höfuðborgarsvæðið

Frá árinu 1987 hefur SSH annast um rekstur og viðhald á fjárheldri girðingu um höfuðborgarsvæðið, sem lögð var að frumkvæði samtakanna. Lausaganga búfjár er bönnuð innan girðingarinnar, og markmið með henni er að koma í veg fyrir ágang og ánauð vegna búfjár í útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu.