Hinn 1. janúar 2022 tók nýr samstarfssamningur sveitarfélaganna um rekstur Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins gildi en þar er fjallað um verkferla og hlutverk þeirra aðila sem koma að rekstri þeirra.
Samstarfsnefnd skíðasvæðanna, sem skipuð er einum fulltrúa frá hverju aðildarsveitarfélaga skíðasvæðanna, hefur m.a. það hlutverk að móta tillögur um stefnu og starfs- og fjárhagsáætlun skíðasvæðanna og að hafa eftirlit með rekstri þeirra. Rekstur svæðanna, svo sem er varðar starfsmannahald, fjárreiður og bókhald er í höndum Menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar samkvæmt sérstökum þjónustusamningi þar um. Það eru svo fulltrúar í stjórn SSH hverju sinni sem skipa eigendavettvang skíðasvæðanna. Eigendavettvangur fjallar um starfs- og fjárhagsáætlun skíðasvæðanna og önnur mál sem varða stefnumótun eða meiri háttar fjárhagslegar ákvarðanir sem falla utan samþykktra áætlana.
Haustið 2017 fór af stað vinna hjá Samstarfsnefnd skíðasvæðanna við mótun framtíðarsýnar skíðasvæðanna en þörf var talin á því að endurnýja lyftukost svæðanna og huga að snjóframleiðslu.
Á árinu 2018 skipaði stjórn SSH sérstakan verkefnahóp til að undirbúa tillögu að aðgerða- og framkvæmdaáætlun á grundvelli vinnu við mótun framtíðarsýnar á uppbyggingu og rekstri skíðasvæðanna. Hópurinn hefur verið starfræktur síðan og hefur, ásamt verkefnastjóra, umsjón og eftirlit með framkvæmdum sem staðið hafa yfir á skíðasvæðunum samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2018. Þrír viðaukar hafa síðan verið gerðir við samkomulagið, en með þeim voru m.a. gerðar uppfærslur á upphaflegri kostnaðar- og tímaáætlun verkefnisins sem höfðu raskast eitthvað, m.a. vegna áhrifa Covid-19.
Verkefnið gengur samkvæmt áætlun og eru nýju skíðalyfturnar Gosi og Drottning komnar í notkun. Þá eru hafnar framkvæmdir til undirbúnings snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Einnig hefur verið hugað að bættri aðstöðu fyrir gönguskíðaiðkun og nýtt salernishús á suðursvæði Bláfjalla hefur verið tekið í notkun.