Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær hafa gert með sér samkomulag um rekstur sameiginlegrar ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. 

Í samkomulaginu er fjallað um sameiginlegan vilja sveitarfélaganna til að vinna sameiginlega að framkvæmd þessarar þjónustu, um samstarf velferðarsviða sveitarfélaganna við mótun sameiginlegra reglna um þjónustuna í samræmi við ákvæði laga og reglna um málefni fatlaðs fólks og um hlutverk Strætó bs. við daglega umsjón með framkvæmd þjónustunnar með rekstri sérstaks þjónustuborðs og útboðs á öllum akstri sem tengist þessari þjónustu.

Kópavogsbær mun þó ekki nýta sér aðgang að þjónustuborðinu né akstri bjóðenda fyrst um sinn vegna núgildandi samnings sveitarfélagsins við sinn akstursaðila.

Hér er um tímamótasamkomulag að ræða í þjónustu sveitarfélaganna við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu

Samkomulagið var undirritað af borgarstjóra og bæjarstjórum sveitarfélaganna í Ráðhúsi Reykjavíkur, borgarstjórnarsal, mánudaginn 19. maí 2014 kl. 11:45.