Borgarlínan er nýtt samgöngukerfi sem verður hryggjarstykkið í þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 og lykilverkefni í samgöngum á svæðinu. Borgarlínan verður hagkvæm og vistvæn leið til að auka flutningsgetu á milli sveitarfélaganna. Hún mun gera þeim kleift að mæta fjölgun íbúa og ferðamanna án þess að álag á stofnvegakerfið aukist í sama hlutfalli. Miðað er við að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu myndi heildstætt tveggja laga kerfi. Annars vegar Borgarlínuna, sem tengir saman kjarna sveitarfélaganna með afkastamiklum liðvögnum og hins vegar strætisvagnakerfi sem verður lagað að Borgarlínukerfinu og myndar net um þéttbýlið.

SSK skyringarmynd5

Borgarlínan mun ferðast í sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins með forgang á umferðarljósum sem eykur áreiðanleika og ferðahraða, þannig að ferðatími verði samkeppnishæfari við aðra ferðamáta. Tíðni ferða verður mikil og getur farið í 5-7 mínútur á annatímum en þar sem þörf er á meiri afkastagetu getur hún farið í um 2 mínútur. Lögð verður áhersla á vandaðar yfirbyggðar biðstöðvar, með farmiðasjálfsölum og samtíma upplýsingaskiltum sem sýna í rauntíma hvenær næsti vagn kemur. Vagnarnir munu stöðva þétt við brautarpalla sem verða í sömu hæð og gólf vagnanna sem auðveldar aðgengi fyrir alla.

Stodin