SSH heimasida 0511 mSóknaráætlun Höfuðborgarsvæðisins 2020–2024

Þann 6. mars 2020 samþykkti stjórn samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2020–2024. Sóknaráætlun er stefnuskjal sem felur í sér stöðumat höfuðborgarsvæðisins, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun landshluta, sjá umfjöllun fyrir neðan.

Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020–2024 tekur mið af þeirri stefnu og framtíðarsýn sem kemur fram í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.

Við gerð sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2020–2024 var ákveðið að leggja höfuðáherslu á þrjá meginflokka með þrettán undirflokkum. Þau eru:

1. Atvinnu og nýsköpun
1.1. Stuðla að aukinni áherslu á iðn -, list- og verknám
1.2. Auka stuðning við nýsköpun og nýsköpunarfyrirtæki
1.3. Auka vægi stafrænnar stjórnsýslu og hagnýtingu stafrænnar tækni
1.4. Efla frekar svæðasamvinnu og samstarf á höfuðborgarsvæðinu

2. Umhverfis- og samgöngumál
2.1. Samhæfa og bæta meðferð úrgangs á höfuðborgarsvæðinu
2.2. Efla almenningssamgöngur og hraða orkuskiptum
2.3. Auka vægi græns skipulags höfuðborgarsvæðisins
2.4. Minnka kolefnisspor höfuðborgarsvæðisins
2.5. Efla fræðslu um loftslagsmál

3. Velferð og samfélag
3.1. Auka hamingju íbúa
3.2. Stuðla að bættri menntun og tómstundum barna
3.3. Auka heilsueflingu og forvarnir
3.4. Bæta samstarf sveitarfélaganna við arkmiðasetningu og utanumhald


pdf button Samþykkt sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

pdf button Verkefni sem ætlað er að vinna á árinu 2020

 

Sóknaráætlun landshluta

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Í sóknaráætlunum landshluta skal mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun.

Þann 12. nóvember 2019 undirrituðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga samninga um sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta. Markmið samningsins er að stuðla að jákvæðri byggðaþróun í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, treysta stoðir menningar og að auka samkeppnishæfni landshluta og landsins alls.

Samningurinn tekur mið af þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun, menningarstefnu og annarri stefnu ríkisins eftir því sem við á. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna. Samningarnir gilda til fimm ára, eða fyrir tímabilið 2020–2024.

Landshlutasamtök sveitarfélaga vinna sóknaráætlun á sínu starfssvæði og bera ábyrgð á framkvæmd hennar. Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál styður landshlutasamtökin við gerð sóknaráætlana. Sóknaráætlanir eru unnar í samvinnu við samráðsvettvang viðkomandi landshluta sem er samstarfsvettvangur eftirtalinna aðila:

• Sveitarfélaga
• Ríkisstofnana
• Atvinnulífs
• Menningarlífs
• Fræðasamfélags
• Annarra haghafa í hverjum landshluta

Byggðastofnun og stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál bera ábyrgð á mati á framvindu sóknaráætlana og eftirliti með fjárreiðum þeirra.

Nánar um sóknaráætlun landshluta

pdf button Samningur ríkis og SSH