Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) efndu til sameiginlegs fundar um fyrirhugaða Borgarlínu í Salnum í Kópavogi 7. júní. Þar voru kynntar fyrstu vinnslutillögur um legu línuleiða og helstu stöðva Borgarlínu og þau viðmið sem skilgreind hafa verið um uppbyggingu á áhrifasvæðum línunnar.Fundurinn var liður í lögbundnu kynningarferli þar sem farið var yfir tillögur um breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 og á aðalskipulagi sveitarfélaganna sex sem standa að Borgarlínu.

Ármann Kr. Ólafsson stjórnarformaður SSH og bæjarstjóri Kópavogs setti fundinn og sagði mikilvægt að fólk hefði í huga að verið væri að kynna frumtillögur sem ættu eftir að þróast og kynnu að taka breytingum áður en kemur að næsta kynningarferli. Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur hjá Viaplan fjallaði um þá valkostagreiningu sem beitt er við Borgarlínu og Stefán Gunnar Thors sviðsstjóri umhverfis-og skipulagssviðs VSÓ Ráðgjöf kynnti skipulagstillögur sveitarfélaganna. Hrafnkell Á. Proppe, svæðisskipulagsstjóri SSH greindi síðan frá ferlinu sem framundan er og stýrði í lokin umræðum um tillögurnar.

Ármann Kr. Ólafsson stjórnarformaður SSH ræðir við sjónvarpsmenn fyrir fundinn í Salnum
Ármann Kr. Ólafsson stjórnarformaður SSH ræðir við sjónvarpsmenn fyrir fundinn í Salnum


Valkostagreining
Lilja G. Karlsdóttir hefur unnið með ráðgjafafyrirtækinu COWI að því að greina þá valkosti um staðsetningu Borgarlínu sem eru fyrir hendi en þessir aðilar hafa áður komið að samsvarandi verkefnum í Noregi og Danmörku. Hún gerði grein fyrir þeim þáttum sem lagðir eru til grundvallar við valkostagreininguna en þar er meðal annars horft til íbúafjölda á hugsanlegum flutningsleiðum, þróunarmöguleika meðfram leiðunum, stofn- og rekstrarkostnaðar og til áskorana við framkvæmdina. Fyrri hluta valkostagreiningarinnar er nú lokið og hefur mögulegum línum verið fækkað úr sextán í sjö og voru þessir sjö valkostir hluti af þeim vinnslutillögum sem kynntar voru á fundinum í Salnum.


Lilja G. Karlsdóttir fjallaði um valkostagreiningu sem beitt er við Borgarlínu 


Aukin hlutdeild almenningssamgangna

Stefán Gunnar Thors gerði grein fyrir fyrirhugaðri legu Borgarlínu í sveitarfélögunum sex eins og hún blasir við eftir fyrri greiningu á valkostum. Hann vísaði til þess að í nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 frá 2015 er kveðið á um að sveitarfélögin skuli í samvinnu við Vegagerðina ákveða legu Borgarlínu og festa í skipulagsáætlunum sínum. Sveitarfélögin hafi sett sér það markmið að auka hlutdeild almenningssamgangna úr 4% í að minnsta kosti 12% af heildar ferðum innan höfuðborgarsvæðisins árið 2040. Hann fór yfir þá kosti varðandi línulegu sem til skoðunar eru í sveitarfélögunum og hvaða skilyrði eru um afmörkun þróunarsvæða við línuna og þær kröfur sem gerðar verða um bíla- og hjólastæði við stöðvar Borgarlínu. Þá bar hann saman ýmis umhverfisáhrif eins og líklegt er að þau muni þróast með og án Borgarlínu og þann tímaramma sem unnið er eftir.

Stefán Gunnar Thors gerði grein fyrir legu Borgarlínu um sveitarfélögin sex
Stefán Gunnar Thors gerði grein fyrir legu Borgarlínu um sveitarfélögin sex


Endanleg tillaga í lok árs

Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri SSH, fjallaði um skipulagsferlið sem framundan er en frestur til að skila inn athugasemdum við frumtillögurnar sem nú eru í kynningu er til 20. júní. Að því loknu verður farið yfir athugasemdir og haldið áfram áfram að vinna í skipulagsferlinu með þá sjö línuvalkosti sem eftir standa. Gert er ráð fyrir að lokatillaga að legu Borgarlínu verði mótuð í sumar og að endanleg tillaga verði lögð fram til kynningar í lok árs. Þá gefst almenningi og hagsmunaaðilum aftur tækifæri til athugasemda. Hrafnkell sagði skipulagsverkefnið felast í að móta framtíðar innviðanet hágæða almenningsamgangna. Stefnan sé að stórauka vægi almenningssamgangna og forsenda þess að það geti gerst sé að byggja upp innviði. Við slíka framtíðarþróun þurfi að horfa áratugi fram í tímann.


Hrafnkell Á. Proppe ræddi næstu skref


Kynningarfundinn í Salnum sóttu hátt í 70 manns. Í umræðum að loknum kynningum komu meðal annars fram efasemdir um að verkefnið væri tímabært og að þróa þyrfti hugmyndir um Borgarlínu betur áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar um útfærslu eða legu línunnar. Kallað var eftir því að gerð yrði nákvæm grein fyrir því hvernig menn hyggist komu Borgarlínu um svæði þar sem nú þegar eru mikil þrengsli og var í því sambandi meðal annars bent á Hringbrautina í Reykjavík. Enn fremur var lýst eftir heildstæðari áætlunum um hvernig skipulagsyfirvöld hyggjast bregðast við hávaða og mengun sem fylgir sívaxandi umferð. Þá hrósaði einn fundargesta sveitarstjórnarmönnum fyrir að hafa tekist að halda þessu mikilvæga máli fyrir utan flokkadrætti stjórnmálanna.

pdf button Kynning á vinnslutillögum skipulags Borgarlínu

Borgarlínan vinnslutillögur